Skip to main content

Rýmingum aflétt á Seyðisfirði líka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jan 2025 14:47Uppfært 21. jan 2025 14:47

Veðurstofa Íslands hefur formlega aflýst hættustigi vegna snjóflóða á Seyðisfirði og íbúar sem þurftu að rýma vegna þess í fyrradag geta nú snúið til síns heima á ný.

Tilkynning um þetta barst fyrir stundu en um hádegisbil fyrr í dag var öllum rýmingum vegna hættuástands aflétt í Neskaupstað og þá var talið líklegt að sama yrði uppi á teningnum í Seyðisfirði síðdegis í dag. Það reyndist stemma og aðeins fyrr en menn hugðu. Íbúar geta því snúið heim á ný og fyrirtæki á hættusvæðum opnað dyr sínar fyrir viðskiptavinum.

Þar með er hættuástandi aflýst á Austurlandi að sinni en hafa ber hugfast að snjóflóðahætta er enn fyrir hendi í fjalllendi samkvæmt snjóflóðhættuspám Veðurstofunnar. Þannig er hættan metin mikil í dag og töluverð á morgun og á fimmtudag.

Alls eru skráð fjórtán snjóflóð á skalanum 1 til 3 sem staðfest er að féllu í fjórðungnum síðustu tvo sólarhringa á vef ofanflóðadeildar Veðurstofunnar. Engin þeirra þó fallið í dag.

Hættan liðin hjá að þessu sinni bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað samkvæmt ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands. Mynd Daniela Webrová