Rýmingum aflétt í Neskaupstað en Seyðfirðingar þurfa að bíða
Um hádegisbil aflýsti Veðurstofa Íslands hættustigi á rýmingarsvæðum í Neskaupstað og þar með var öllum rýmingum í bænum aflétt samstundis. Seyðfirðingar þurfa þó að hinkra lengur því þar féll meiri snjór í gærkvöldi og nótt en í Neskaupstað. Vonast er til að rýmingar þar heyri sögunni til síðdegis.
Það gekk því eftir sem spáð var að hættustigi yrði aflétt fljótt eftir að ofankoma gekk niður að mestu snemma í nótt. Framundan eru tveir til þrír dagar af hæglætisveðri samkvæmt veðurspám og ekki von á meiri snjókomu fyrr en lítilsháttar éljum þegar líða fer á kvöld á fimmtudaginn kemur.
Íbúar í Neskaupstað geta því haldið heima á leið á ný og fyrirtækjum á rýmingarsvæðum heimilt að hefja starfsemi á nýjan leik.
Beðið er lengur með afléttingu í Seyðisfirði sökum þess að þar féll meiri snjór til jarðar en annars staðar í gær og nótt. Vilja menn meta stöðuna sérstaklega út frá því aðeins lengur en ella til öryggis. Afar líklegt þykir að þar verði rýmingar felldar úr gildi á næstu klukkustundum.
Mikið fannfergi og flughálka á Seyðisfirði í morgun þegar björgunarsveitir fóru þar um. Mynd Landsbjörg