Sagðist kominn til að skoða norðurljósin en var að smygla dópi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. okt 2025 10:39 • Uppfært 01. okt 2025 10:41
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þrjá karlmenn í fangelsi fyrir innflutning fíkniefna til landsins í apríl. Burðardýrið kom með Norrænu og ræddi lögregla við það strax við komuna til Seyðisfjarðar. Maðurinn sagðist vera kominn til að skoða norðurljósin en flókin ferð hans vakti grunsemdir.
Við greiningu á farþegum Norrænu vaknaði grunur um að burðardýrið, Spánverji áður búsettur í Úrúgvæ, væri mögulega með fíkniefni. Lögregla var látin vita af þessu.
Tollgæsla í Færeyjum skoðaði manninn og ræddi við hann. Hann sagðist ætla til Íslands til að sjá norðurljósin og hitta vinkonu sem hann hefði kynnst tveimur árum fyrr. Söguna endurtók hann þegar hann var færður í annars stigs viðtal við komuna til Seyðisfjarðar.
Fljúgðu frekar?
Ferðaplan mannsins vakti athygli, en hann hafði tekið rútur og lestir frá heimaborg sinni Barselóna til Parísar, þaðan áfram til Hamborgar og loks Hirtshals. Hann greiddi 500 evrur fyrir ferjuna en síðan líka fyrir aðrar ferðir, gistingu og uppihald. Maðurinn hélt því fram að þetta væri ódýrari ferðamáti en athugun lögreglu sýndi að ódýrasta flugið frá Barselóna til Reykjavíkur á þessum tíma kostaði 163 evrur. Hann sagði þetta líka leið til að skoða landið og áformaði að ferðast áfram til Reykjavíkur með rútu.
Miðað við dóminn þótti pottasett, sem maðurinn hafði meðferðis, strax grunsamlegt í Færeyjum. Á Seyðisfirði sagðist hann ætla að gefa það vinkonunni. Þar voru pottarnir röntgenmyndaðir og þá sást lífrænt efni á botni þeirra.
Sýndi lítinn áhuga á Seyðisfirði og Egilsstöðum
Ekki var talið að maðurinn væri raunverulegur innflytjandi efnanna. Þess vegna var ákveðið að fylgja honum eftir og hlustunar- og staðsetningarbúnaði komið fyrir í farangri hans með leynd. Í dóminum má lesa lýsingar af ferðum hans á Seyðisfirði og Egilsstöðum, sem vaktaðar voru af ómerktum lögreglumönnum. Hann fór á kaffihús og matvöruverslanir en skoðaði ekki náttúruna og virtist var um sig.
Hann hafði heldur ekki kynnt sér áætlun landsbyggðarstrætós nógu vel því hann fór að stöðvarskiltinu við tjaldsvæðið á Egilsstöðum klukkan 12:30 á miðvikudegi en þá daga eru engar ferðir þaðan. Hann komst loks áfram daginn eftir til Akureyrar og þaðan til Reykjavíkur.
Í borginni tóku á móti honum annar Spánverji, umsjónarmaður innflutningsins og litháískur bílstjóri. Lögregla fylgdi þeim eftir og handtók þá loks á leiðinni út úr borginni. Fíkniefnin fundust undir fölskum botni í pottunum.
Umsjónarmaður sem játaði allt
Fyrir dómi sagði burðardýrið að umsjónarmaðurinn hefði oft hjálpað honum með ferðaáætlanir og bókanir því hann væri tækniheftur. Umsjónarmaðurinn hefði einnig beðið hann um að taka með sér pottasettið, hann hefði ekkert vitað um efnin í því. Þar breytti hann frásögn sinni og sagði pottana hafa átt að fara til nafngreindrar vinkonu umsjónarmannsins.
Sá játaði hins vegar aðkomu sína að málinu og ljóstraði upp um þátt hinna. Hann sagðist hafa tekið það að sér til að losna undan skuldum en vildi koma hreint fram. Skipulagið var í höndum manns sem hann hafði ekki hitt en var með litháískt símanúmer. Í vitnisburði mannsins kom fram að burðardýrið hefði spurt við undirbúninginn hvort ekki væri einfaldara að hann flygi en verið svarað að leiðin sem valin var ætti að vera öruggari. Hann játaði að vinkonan væri tilbúningur.
Í niðurstöðu dómsins segir um þátt burðardýrsins að ljóst hafi verið að maðurinn væri ekki að koma sem ferðamaður. Hann hefði ekkert skoðað sig um og engan hitt. Hann var margsaga um pottasettið og frásögn hans almennt ótrúverðug. Honum hefði verið fyllilega ljóst hvað var í gang. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi en ekki er vitað til þess að hann hafi áður brotið af sér.
Umsjónarmaðurinn var sömuleiðis með hreinan sakaferil. Játningin átti þátt í að hann fékk 2,5 ára fangelsi.
Náði í símann þrátt fyrir að vera í járnum
Saga bílstjórans, eða reddarans, er ekki minnst furðuleg af öllum. Hann hefur búið hérlendis í tæp tíu ár en kvaðst bjóða þjónustu sína sem skutlari á Facebook. Við handtökuna náði hann, þrátt fyrir að vera handjárnaður, að krafsa í símann sinn og hringja í fjórða mann sem eyddi út skilaboðum. Hann skýrði vog, sem þeir höfðu meðferðis, þannig að hann hefði ætlað að vigta gull sem hann vildi selja í Litháen.
Sá átti að baki sekt fyrir tollalagabrot árið 2017 og aðra mjög nýlega fyrir að vera með falsað vegabréf eða skírteini. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi. Hver mannanna þarf að greiða um fjórar milljónir króna til verjenda sinna og í sakarkostnað.