Orkumálinn 2024

Samkeppnisyfirlitið grípur ekki inn í kaup Síldarvinnslunnar á Vísi

Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til íhlutunar vegna kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík sem tilkynnt var um í sumar þar sem hún hafi ekki teljandi áhrif á stöðu í íslenskum sjávarútvegi. Eftirlitið telur hins vegar ástæðu til að skoða hvort eigna- og stjórnunartengsl í íslenskum sjávarútvegi, þar með talið tengsl Síldarvinnslunnar við Samherja, séu meiri en áður hafi verið skýrt frá.

Þetta kemur fram í úrskurði eftirlitsins sem birtur var í gær. Við athugun sína kannaði Samkeppniseftirlitið hvort umsvif Síldarvinnslunnar annars vegar, hins vegar Síldarvinnslunnar og hennar stærstu eigenda, færu yfir viðmið um það sem eðlilegt gæti talist á samkeppnismarkaði.

Samsteypa Síldarvinnslunnar, sem einnig inniheldur Berg-Huginn í Vestmannaeyjum og Runólf Hallfreðsson á Akranesi auk Vísis, er með 14% heildaraflamarks. Til samanburðar er nefnt að Brim eigi um 13%. Þegar Samherji og Gjögur bætast við Síldarvinnslusamsteypuna hækkar hlutfallið í 24,6%. Það breytir því ekki að hlutfallið er undir þeim viðmiðum sem stuðst er við í evrópskum samkeppnisrétti.

En þótt verði veruleg samþjöppun með aflaheimildum þannig að samkeppni raskist með kaupunum á Vísi þá telur Samkeppniseftirlitið engu síður ástæðu til að skoða tengsl í íslenskum sjávarútvegi.

Eftir kaupin á Vísi mun Samherji eiga 30% í Síldarvinnslunni og Gjögur/Kjálkanes 16%. Eign þeirra hefur þó minnkað eftir að Síldarvinnslan var skráð á almennan hlutabréfamarkað í fyrra sem og með kaupunum nú, sem að hluta er greitt fyrir með hlutafé í Síldarvinnslunni.

Samkeppniseftirlitið tekur fram að rannsóknir þess hafi leitt í ljós talsverð stjórnunar-, eigna- og viðskiptatengsl milli Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögurs/Kjálkaness sem feli í sér vísbendingar um að stofnast hafi til yfirráða í Síldarvinnslunni umfram það sem áður hafi verið greint frá í tilkynningum um samruna. Þetta hafi meðal annars orðið til þess að í byrjun október ákvað eftirlitið að hefja sjálfstæða athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi.

Eftirlitið bendir einnig á vandamál sem fylgi því að yfirráð séu ekki skilgreind eins í samkeppnislögum og lögum um fiskveiðistjórnun. Þannig sé það sjálfstætt álit Fiskistofu að kanna hvort sá kvóti sem kominn sé í hendur Síldarvinnslunnar og tengdra aðila fari yfir þau mörk.

Fram kemur að Samkeppniseftirlitið og Fiskistofa hafi þegar fundað vegna þessara mála og lýsir eftirlitið sig reiðubúið til að aðstoða Fiskistofu í framhaldinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.