„Samkvæmt útreikningi verkfræðinga og framleiðanda mun hávaðinn fara undir viðmiðunarmörkin“

Fyrr í dag greindi Austurfrétt frá því Fjarðabyggð hafi veitt Loðnuvinnslunni byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á vinnslu sinni á þeim forsendum „að hljóðvist við Búðaveg 24 verði mæld þegar framkvæmdum er lokið og búnaður kominn í fulla virkni, til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig sé innan tilskilinna marka.“


Íbúar við Búðaveg 24 hafa lýst yfir óánægju sinni við fyrirhugaða viðbyggingu og segja að þau hafi búið við „óþolandi hávaðamengun, sem er yfir viðmiðunarmörkum og skerðingu á lífsgæðum frá áður nefndum blásurum. Á álagstímum er ekki svefnfriður í jafnvel svo vikum og mánuðum skiptir og hefur valdið íbúum mikilli vanlíðan,“ segja íbúarnir.
Síðastliðið haust var gerð hljóðmæling við íbúðarhús þeirra og kom í ljós að hljóðstig frá vinnslunni var rúmlega 60 dB en viðmiðunarmörk samkvæmt reglugerð um hávaða eru 50 dB frá atvinnustarfsemi í íbúðabyggð.

Síðan þessi mæling fór fram hefur hefur verið settur hljóðdeyfir á kælibúnaðinn. „Eftir að við ræddum við íbúana fórum við í það að kaupa hljóðdeyfi til að koma til móts við þau. Við það minnkaði hávaðinn töluvert. Í vetur munum við setja upp nýja sjálfvirka uppsjávarvinnslu og þar með einnig nýjan kælibúnað og samkvæmt útreikningum verkfræðinga og framleiðanda mun hávaðinn fara undir viðmiðunarmörkin við það. Í millitíðinni ætlum við að framkvæmda nýja hljóðmælingu þar sem við mælum hver hávaðinn er eftir að við settum hljóðdeyfinn á gamla búnaðinn, það gerum við til að eiga þau gögn. Sá kælibúnaður sem settur verður upp í vetur er sérhannaður til að koma í veg fyrir hávaða. Í gamla uppsjávarhúsinu var notast við álpönnur en í því nýja eru plastpönnur sem eru hljóðlátar. Þetta gerum við til að vera í sátt og samlyndi við umhverfið,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Friðrik segir að fyrirtækið hlusti á allar athugasemdir sem því berst og vill koma til móts við íbúa. „Fyrirtækið hefur ekki orðið vart við almenna óánægju en þetta eru vanalega 60-90 dagar sem vinnslan er í gangi á ári. Eðlilega er hávaðinn meiri á sumrin þegar kælibúnaðurinn þarf að vinna meira vegna lofthita. Fyrirtækið hefur verið á þessum stað í áratugi og því hefur aldrei verið lofað að það muni flytja á næstunni eins og haldið hefur verið fram. Það er á langtímaáætluninni en það eru engar forsendur til þess að fara í svo gríðarlega fjárfestingu á þessum tímapunkti. Ég bendi á loðnubrest undanfarin ár í því samhengi,“ segir Friðrik að endingu.

 

Myndin sýnir teikningu á nýju uppsjávarvinnslu sem tekin verður í notkun hjá Loðnuvinnslunni í janúar árið 2022.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.