Samræma fæðisgjöld í leikskólum Múlaþings með haustinu
Allt að 36% munur getur verið á hvað foreldrar leikskólabarna þurfa að greiða í fæðisgjöld fyrir börn sín í leikskólum Múlaþings en nýverið var tekin sú ákvörðun að samræma þá gjaldskrá frá og með 1. ágúst næstkomandi.
Borið hefur á óánægju stöku foreldra í sveitarfélaginu á mismunandi fæðiskostnaði barnanna eftir því hvar leikskólarnir eru staðsettir. Þykir það skjóta nokkuð skökku við með tilliti til að sjálf leikskólagjöldin fyrir alla skólana hafa verið samræmd að fullu.
Það eru foreldrar barna í leikskólanum á Seyðisfirði sem hæst fæðisgjaldið greiða eða 13.569 krónur á mánuði en í öllum skólunum er innifalið í þeim gjöldum morgunverður, ávaxtahressing, hádegisverður og síðdegishressing. Mánaðarlegt fæðisgjald leikskólabarna á Djúpavogi er nú 13.407 krónur en fyrir barn á leikskólunum Tjarnarborg og Hádegishöfða eru greiddar 9.930 krónur per mánuð. Munur á hæsta og lægsta verð því kringum 3.700 krónur á mánuði sem fer að skipta tugum þúsunda fyrir hvert leikskólaár.
Að sögn Heiðu Ingimarsdóttur, verkefnastjóra upplýsinga- og kynningarmála hjá Múlaþingi, skýrist verðmunurinn af flóknari samræmingu á fæðisgjöldum sem skýrist bæði af mismunandi kostnaði vegna aðfanga á hverjum stað en ekki síður mismunandi stærð mötuneyta á hverjum stað.
Mál þetta var reyfað á fundi fjölskylduráðs Múlaþings í liðnum mánuði og þar ákveðið að samræma skuli fæðisgjöld allra skólanna fyrir 1. ágúst næstkomandi. Í þeirri vinnu skal sérstaklega tekið mið af núverandi gjaldskrá.
Nýjasti leikskóli Múlaþings í Fellabænum. Þar er fæðiskostnaður á hvert barn 36% lægri en barna á Seyðisfirði. Mynd VSÓ