
Sauðir vilja varðveita og viðhalda Sauðárkofa á Vesturöræfum
Hópur sautján áhugasamra einstaklinga hafa leitað samninga við Fljótsdalshrepp um að yfirtaka og í kjölfarið endurbæta hinn gamla gangnamannakofa Sauðárkofa á Vesturöræfum.
Hópurinn kallar sig Sauði og þykir þeim öllum miður hve kofinn atarna og umhverfið í kring hefur látið á sjá með tímanum. Hugmyndin er, að sögn Baldurs Pálssonar, eins forsprakka hópsins, að dytta að byggingunni og ekki síður umhverfinu kringum hann svo hann megi nýtast hópnum sjálfum en ekki síður öðru ferðafólki á þessum slóðum í framtíðinni.
„Við erum að stofna þetta félag Sauði og ætlum að ná samkomulagi við Fljótsdalshrepp um að fá forræðið en þeir eiga húsið. Það þarf í raun ekki svo ýkja mikið að gera hvað viðhald snertir. Við sjáum fyrir okkur að gera þetta að góðum stað með því að setja upp nýjan kamar, setja upp nýjar hurðir og snyrta í kring svona til að byrja með en einnig þarf alls kyns smærri lagfæringar eins og gengur. Í stuttu máli að gera staðinn að prýði þarna í þessu landslagi og í kjölfarið nýta hann eins og best verður á kosið.“
Baldur segir ekki hugmyndina ekki að Sauðahópurinn einoki aðstöðuna í Sauðárkofa þegar lagfæringar hafa verið gerðar heldur að hann verði með einhverjum hætti opinn öllum ferðalöngum sem um svæðið fara.
Kofarnir menningarverðmæti
Af hálfu Fljótsdalshrepps hefur erindinu verið vel tekið enda um menningarverðmæti sem vert sé að vernda að ræða. Hreppurinn hefur með einu eða öðru móti áður komið að slíkum verkefnum þar sem gömlu kofarnir öðlast nýjan tilgang. Má þar nefna gagnamannakofana að Hrakströnd og Fjallaskarði auk þess sem slíkur kofi fannst að Laugarfelli en þar reis nýr gistiskáli með tilstuðlan sveitarfélagsins. Þá er og verið að gera upp Hálsakofa í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð.