Segir rekstur Fjarðabyggðar hafa farið í ranga átt

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði Fjarðabyggðar sat hjá á fundi þess í kvöld þar sem gengið var frá ráðningu Jóns Björns Hákonarsonar, oddvita Framsóknarflokksins, sem nýs bæjarstjóra og öðrum breytingum á nefndaskipan því samhliða.

„Við sitjum hjá þar sem meirihlutinn ber ábyrgð á því sem verið hefur í gangi undanfarið. Okkur hefur verið haldið algjörlega utan við þessa atburðarás sem hefur átt sér stað,“ segir Ragnar Sigurðsson, sem sat fundi bæjarráðs í dag fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Ráðning Jóns Björns og aðrar breytingar samhliða henni voru samþykktar á fundi bæjarráðs seinni partinn í dag með tveimur atkvæðum fulltrúa meirihluta. „Við sitjum hjá þar sem verið er að ráða pólitískan bæjarstjóra,“ segir Ragnar.

Breytingarnar koma í kjölfar þess að Karl Óttar Pétursson óskaði í morgun eftir að láta af störfum sem bæjarstjóri. Ragnar segir að bæjarfulltrúar minnihlutans hafi ekki fengið neinar nánari upplýsingar um ástæðurnar þar að baki.

Hann segir hins vegar að breytingarnar komi ekki á óvart því rekstur sveitarfélagsins hafi verið á rangri leið. „Stjórnun meirihlutans á sveitarfélaginu er ekki góð og atburðir dagsins eru afleiðingar þess. Atburðirnir staðfesta að það hefur verið ákveðin óstjórn í rekstrinum í dágóðan tíma.

Reksturinn hefur farið niður á við og það gerðist áður en Covid-faraldurinn skall á okkur. Við höfum ítrekað vakið máls á því og bókað áhyggjur okkar á því hvert fjárhagurinn og sveitarfélagið stefnir,“ segir hann.

Aðspurður um hvort Jón Björn njóti trausts Sjálfstæðismanna svarar hann: „Þetta snýst ekki um einstaklingana heldur um rekstur sveitarfélagsins sem að okkar mati er í ógöngum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.