Segja velferð íbúa og starfsmanna í forgrunni

Í maí síðastliðnum skilaði verkfræðistofan EFLA skýrslu til Fjarðabyggðar þar sem kynntar voru niðurstöður á sýnatöku sem framkvæmdar voru á húsnæði Breiðabliks, íbúðum eldri borgara, í Neskaupstað.

Niðurstöður skýrslunnar voru þær að húsnæði Breiðabliks var illa farið af myglu, þar á meðal íbúðir, og hafa endurbætur á íbúðum þar sem mygla fannst farið fram í sumar.

Fyrir helgi greindi Austurfrétt frá því að íbúar Breiðabliks munu þurfa að búa í húsnæðinu á meðan framkvæmdir standa yfir, en starfsfólki hefur verið tjáð að það geti tekið allt að þremur árum. Auk íbúða þar sem mygla fannst er þakið illa farið, föndurherbergið er enn lokað vegna myglu auk þess sem eftir á að taka í gegn borðsal og viðbyggingu hússins.

Í kjölfar umfjöllunar Austurfréttar sendi Fjarðabyggð fréttatilkynningu frá sér vegna málsins. Í henni kemur m.a. fram að „velferð íbúa og starfsmanna í Breiðablik hefur og mun alltaf verða í forgrunni þeirra aðgerða sem þar er ráðist í til að lagfæra húsnæðið vegna þeirra myglu sem þar fannst.“ Sveitarfélagið segir vinnuna ganga vel og hún sé unnin með sérfræðingum EFLU.

Fyrir framkvæmdir láku lagnir í húsinu en nú er búið er að stöðva allan þann leka. Þá er búið að hreinsa þau rými þar sem myglan fannst og unnið er að því að auka loftræstingu í öllum rýmum. Í föndurherberginu er stefnt að því að skipta um alla glugga og að þeirri vinnu lokinni verður unnið frekar við það rými. Þá hefur engin ákvörðun verið tekin um þak hússins sem reyndist illa farið af myglu, til skoðunar er að skipta um þakið að hluta eða að öllu leyti en talið er að engin hætta sé á því að myglan berist í aðra hluta hússins.

Sveitarfélagið tekur sérstaklega fram að íbúar í þeim íbúðum þar sem mygla fannst hafa ekki dvalið í þeim þar sem framkvæmdir standa yfir. Eins og fram kom í Austurfrétt fyrir helgi má búast við að þeir íbúar flytji aftur inn á næstu vikum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.