Selur nýupptekið kál á Egilsstöðum
Margrét Árnadóttir garðyrkjubóndi á Hallfreðarstöðum býður fólki á Egilsstöðum og nágrenni upp á nýupptekið kál til sölu. Hún ræktar það á lóð Barra á Valgerðarstöðum. Tegundirnar sem enn eru í boði eru hvítkál, hnúðkál og grænkál.„Ég er núna á leiðinni til Egilsstaða með kálið í skottinu,“ segir Margrét þegar við náðum tali af henni fyrr í dag. „Ég keyri ekki til Egilsstaða nema eiga þangað erindi eins og í dag er ég að fara í sjúkraþjálfun. Fólk er hinsvegar velkomið að koma til mín að versla.“
Margrét segir að í vor hafi hún sáð einum 20 tegundum af grænmeti en frostið í vor fór illa með hluta af uppskerunni. Á heildina litið hafi blómkálið verið vinsælasta grænmetið hjá henni í haust. „Ég verð bara að vona að næsta vor verði betra en í ár,“ segir hún.
Margrét selur grænmeti sitt í gegnum Facebook síðuna Grænmeti og gotterí. Þar gerir hún grein fyrir sér og segir m.a.: „Ég lét draum minn rætast haustið 2016 og hóf nám við Garðyrkjuskólann á Reykjum komin hátt á sextugs aldurinn. Draumurinn var eiginlega alveg eins og ég hélt bæði skemmtilegur og einnig fróðlegur og nærandi.“
Einnig kemur fram að hún keypti 5 gróðurhús eða bogahús á lóð Barra á Valgerðarstöðum. „Meiningin var þá að flytja þau heim í sveit en við marg endurhannað ræktunarsvæði ákvað ég að láta reyna á hvort ég gæti verið áfram á Valgerðarstöðum og nýtt mér heitt vatn og nálægð við markað. Sú vinna er enn í gangi og vonandi gengur það upp að lokum,“ segir á Facebook.
„Ég lauk námi mínu í lífrænni ræktun og langar mig mest að halda mig við hana en er ekki komin svo langt ennþá. Í haust ætla ég að bæta við kunnáttu mína í ræktun og bæta við mig aðeins meira námi í ylrækt blóma og fleira.“