Seyðfirðingar hittast í kvöldverði í Herðubreið

Á fimmtudagskvöldum hittast Seyðfirðingar og borða saman í félagsheimilinu Herðubreið. Skipuleggjandi segir mikilvægt fyrir íbúa að hittast og tala saman í kjölfar skriðufallanna í desember.

Seyðfirðingar borðuðu saman í Herðubreið bæði á aðfangadag og gamlársdag. Það virðist hafa kveikt hefðina því síðan hafa þeir haldið áfram að hittast á fimmtudagskvöldum.

Matseðillinn nú er hins vegar einfaldari en yfir hátíðarnar. Kjörbúðin og Austurlands Food Coop hafa gefið hráefni og úr því er elduð vegleg súpa.

„Það er mikilvægt fyrir samfélagið að hittast, borða saman, tala saman og segja sögur af viðburðum síðustu vikna á meðan við erum að jafna okkur saman sem samfélag,“ segir Sesselja Hlín Jónasdóttir, sem rekur Herðubreið ásamt Celiu Harrison.

Þær hafa staðið vaktina þar ásamt fleirum. Mikið hefur mætt á Herðubreið síðustu vikur sem gegnt hefur hlutverki fjöldahjálparmiðstöðvar frá því um miðjan desember. Þar hefur því verið opið stanslaust.

„Við reynum að passa upp á að Herðubreið sé staður þar sem fólki líður vel til að geta haldið utan um það. Hér hefur verið opið dag og nótt og við vorum með hádegis- og kvöldmat þar til nýlega. Hingað getur fólk komið ef það þarf félagsskap, öxl til að gráta á og svo höfum við verið með teiknimyndir í bíósalnum fyrir börnin. Við pössum að fólk hafi samastað.“

Smitvarnir hafa á köflum þurft að víkja í viðbrögðum við hamförunum en Sesselja Hlín leggur áherslu á að reynt sé að passa upp upp á þær með að hafa tvo metra milli borða og grímuskyldu meðal gesta.

Sesselja sjálf er meðal þeirra sem ekki hafa getað farið aftur til síns heima. Hún býr að Hafnargötu 42, næsta húsi utan við Tækniminjasafnið. Rýming er enn í gildi og reyndar enn óljóst hvort yfir höfuð verði heimilt að dvelja aftur á því svæði. „Ég fékk nokkra daga til að fara heim til að pakka og koma því helsta út,“ segir hún.

„Fyrstu dagarnir voru erfiðir. Ég á kött og mátti ekki sækja hann fyrr en 6-7 dögum síðar. Hann er með áfallastreitu. Hann er hræddur við allt og það hefur verið dálítið af vondu veðri hér en hann er allur að koma til,“ segir Sesselja sem fengið hefur annað hús á Seyðisfirði sem hún dvelur í meðan hún lýkur við byggingu húss sem hún byrjaði á fyrir nokkru síðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.