Síðasta tækifærið að taka þátt í LungA
Í dag opnaðist fyrir skráningu á listahátíðina LungA á Seyðisfirði sem samanstendur sem endranær af fjölmörgum listasmiðjum auk tónleika og skemmtanahalds í lokin. Þetta verður í síðasta skipti sem hægt verður að taka þátt.
Listahátíðin LungA rennur sitt skeið í sumar en tekin var sú ákvörðun síðasta haust að láta staðar numið en hátíðin hefur verið haldin allar götur frá árinu 2000 og aldeilis sett svip sinn á bæjarlífið á Seyðisfirði.
Að sögn Þórhildar Tinnu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra LungA, hefur reynslan undanfarin ár verið að fljótt fyllist í listasmiðjurnar eftir að skráning hefst svo hún hvetur alla til að hafa hraðar hendur sem áhuga hafa.
„Það er komin svo góð reynsla af þessu að við breytum ekkert mikið út af venjunni þó þetta sé allra síðasta skiptið. Í boði nú verða sjö mismunandi listasmiðjur bæði fyrir fullorðna og ungmenni. Svo kynnum við sérstaklega tvær barnasmiðjur um næstu mánaðarmót. Við byrjuðum á því í fyrra að bjóða fólki sem búsett er á Austurlandi sérstök afsláttarkjör og það tókst svo vel að við endurtökum það nú.“
Margir koma til að kveðja
Listasmiðjurnar hefjast allar mánudaginn 15. júlí og standa alla þá vikuna og á laugardaginn verður lýkur hátíðinni með stórtónleikum. Þórhildur segir að þegar hafi ýmsir einstaklingar frá fyrri tíð boðað komu sína til að taka þátt í kveðja hátíðina
„Við erum til dæmis bráðlega að fara að tilkynna enn fleiri tónlistarmenn sem taka þátt með okkur í sumar og þau velflest með einhverjar tengingar til fyrri hátíða svo það ætti að verða margt um manninn enda hefur þetta snert líf margra og haft afdrifarík áhrif á skapandi feril fjölmargra einstaklinga. Þannig að þetta gæti orðið svona að einhverju leyti góðkunningjamót.“
Þórhildur bendir á að allar upplýsingar um smiðjurnar sem í boði verða auk annarra helstu upplýsinga auk skráningarforms megi finna á vefnum lunga.is