Sigmundur Davíð: Segir sig sjálft að ég hefði viljað meira

Formaður Miðflokksins viðurkennir að kosningaúrslitin á laugardag hafi valdið honum vonbrigðum, en flokkurinn tapaði helmingi þingmanna sinna. Hann boðar að flokkurinn verði enn beittari í stjórnarandstöðu.

„Það segir sig sjálft að ég hefði viljað að við fengjum meira á landsvísu.

Ég er hissa. Þetta eru ein óvænstu úrslit í kosningum sem ég hef sé, ekki bara varðandi okkur heldur fleiri flokka.

Ég reiknaði með að úrslitin yrðu önnur en kannanir sýndu en átti frekar von á að það yrði á hinn veginn, okkur í hag. Fyrir fjórum árum mældumst við með 13,6% í Norðausturkjördæmi kvöldið fyrir hjá Gallup, en nú voru það 14%. En fylgið fór í aðra átt á kjördag.

En þetta er niðurstaðan og það er ekki annað í stöðunni en sætta sig við hana. Við lítum á þetta sem upphafspunkt og berjumst áfram,“ segir Sigmundur.

Ánægður með traustið úr kjördæminu

Eftir fyrstu tölur átti Miðflokkurinn engan þingmann á Alþingi. Í viðtölum eftir þær kvaðst Sigmundur bjartsýnn á að úr rættist og hafði rétt fyrir sér. Þegar á leið nóttina vænkaðist hagurinn og svo fór að flokkurinn fékk þrjá þingmenn, þar af tvo kjördæmakjörna. „Ég hef gengið í gegnum þetta nokkrum sinnum áður og var sannfærður um að þetta félli meira með okkur eftir því sem liði á nóttina.“

Sigmundur er annar hinna kjördæmakjörnu. „Ég er glaður með hve traust Norðausturkjördæmi reyndist okkur. Ég er þakklátur fólkinu sem vann með okkur og kjósendum sem kusu okkur. Þeir gefa okkur færi á að berjast áfram fyrir því sem við trúum að sé mikilvægt.“

Telur kjósendur hafa kosið eftir tilfinningum

Fyrir fjórum árum fékk flokkurinn tvo þingmenn í kjördæminu og úrslitin þýða að Anna Kolbrún Árnadóttir féll af þingi. Á landsvísu lækkaði fylgið úr 10,9% í 5,4%. „Það er hæpið að túlka of mikið eftir á en það sem ég held að hafi gerst í heildina er áhugaverð og veruleg breyting frá því sem var. Það er þekkt að afstaða til stjórnmála snýst meira um tilfinningar en rök eða staðreyndir en yfirleitt breyttist það rétt fyrir kosningar og stefnan hafði meiri áhrif. Það öfuga gerðist núna, að kjósendur fóru meira í tilfinninguna.

Það sést meðal annars á að Framsóknarflokkurinn keyrði á slagorði sem við fyrstu sýn virtist eitt hið furðulegasta sem maður hefur séð: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Í því var hálfgerður uppgjafartónn. Svo virðist að auglýsingastofan hafi þó, eins og stundum áður, fangað tíðarandann – að það sé þægilegast að kjósa án þess að spá of mikið í því.

Þetta er í samræmi við það sem ég kalla viðskiptamódel Framsóknarflokksins, að endurfæðast fyrir kosningar. Að dvelja ekki of mikið við það sem gerst hefur árin á undan heldur fá auglýsingastofu til að gera sig sniðugan. Það tókst ótrúlega vel núna. Þetta fólk náði tíðarandanum og það skilaði árangri.“

Enn meira woke-ríkisstjórn

Aðspurður um ríkisstjórnir svarar Sigmundur Davíð að hann reikni með að núverandi ríkisstjórn haldi áfram og býr sig því undir fjögur ár í stjórnarandstöðu.

„Ég met það svo að þau langi til að starfa áfram. Þau sögðu það nánast fyrir kosningar. Ég hugsa að ríkisstjórnin klári uppskrift mála úr þinginu, eins og um Hálendisþjóðgarð, ausi áfram peningum í óljós loftslagsmarkmið, verði enn meiri woke-ríkisstjórn en áður og elti tíðarandann fremur en leiða hann.

Það gildir sem við sögðum fyrir kosningar. Við erum til í að taka þátt í stjórnarsamstarfi á grundvelli góðra málefna en við erum líka tilbúnir að vera í stjórnarandstöðu og vera enn hreinskilnari og beittari en áður, þótt við séum færri.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.