Síld flæðir yfir kolmunnaslóðina

Uppsjávarskipin Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK komu til Neskaupstaðar í gær og í morgun með síldar- og kolmunnaafla. Börkur NK er síðan væntanlegur í dag.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að Beitir NK kom með 700 tonn af kolmunna og 800 tonn af síld í gær. Vinnsla á síldinni hófst strax en nú er unnið í fiskiðjuverinu á tveimur vöktum í stað þriggja eins og þegar síldarvertíðin stóð sem hæst, enda ekki um samfellda vinnslu að ræða.


Bjarni Ólafsson AK kom í morgun með um 870 tonn af kolmunna og segir Runólfur Runólfsson skipstjóri að heldur hafi dregið úr kolmunnaveiðinni og síld hafi flætt yfir kolmunnaslóðina.

Börkur NK er væntanlegur til Neskaupstaðar í dag og er hann með um 940 tonn af síld og 430 tonn af kolmunna. Síldin fékkst í þremur holum norðantil í Norðfjarðardýpi og var töluvert að sjá þar.

Mynd: Hákon Ernuson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar