Síldarvinnslan kaupir jörð til skógræktar

Síldarvinnslan hefur fest kaup á jörðinni Fannardal í Norðfirði og er áformað að nýta hana til skógræktar. Með skógræktinni mun fyrirtækið hefja bindingu kolefnis á móti þeirri kolefnislosun sem það veldur með starfsemi sinni.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að landið sem nýtt verður til skógræktarinnar er 300-400 hektarar og verður fljótlega gerð áætlun um gróðursetningu.

„Fyrir utan skógræktina eru einnig möguleikar til vatnsaflsvirkjana á jörðinni. Fjórar ár eru í Fannardalslandi og eru þær vatnsmiklar. Þá ber að nefna að leitað hefur verið að heitu vatni í landi Fannardals og eru einhverjar líkur á að frekari leit geti skilað árangri. Einnig skal þess getið að jörðin er við vatnsverndarsvæði Norðfirðinga. Stefnt er að því að hin fyrirhugaða skógrækt í landi Fannardals verði framkvæmd í samvinnu við Skógrækt ríkisins.“ segir á vefsíðunni.

Ennfremur segir að Síldarvinnslan hefur markvisst unnið að verkefnum á sviði umhverfismála á undanförnum árum. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja hefur verið á dagskrá og einnig hafa verið keypt ný og sparneytin skip þannig að olíunotkun fyrirtækisins hefur minnkað mikið. Nýjasta verkefnið er öflugur landtengingarbúnaður við fiskiðjuverið í Neskaupstað sem gerir það mögulegt að skipin noti einungis raforku þegar landað er. Sams konar búnaði er nú verið að koma upp við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Nú bætist síðan við hin fyrirhugaða skógrækt í Fannardal.

„Hjá Síldarvinnslunni eru miklar vonir bundnar við skógræktarverkefnið. Auk þess að skógurinn gegni hlutverki á sviði kolefnisbindingar er mögulegt að gera Fannardal að eftirsóknarverðu útivistarsvæði sem allir geti notið. Nú verður ráðist í að skipuleggja landið og ákveða hvenær skógræktarverkefnið hefst. Hér á heimasíðunni verða fluttar fréttir um framgang verkefnisins á komandi mánuðum,“ segir einnig.

Fannardalur er innsta jörðin í Norðfjarðarsveit, um 10 kílómetra inn af Norðfjarðarbotni. Jörðin er innst í Norðfjarðardalnum en innsti hluti dalsins er álitinn sérstakur dalur og ber heitið Fannardalur.

Mynd: svn.is/Smári Geirsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar