Síldarvinnslan kaupir útgerðarfélagið Berg í Eyjum
Síldarvinnslan hefur fest kaup á útgerðarfélaginu Bergi í Vestmannaeyjum í gegnum félag sitt Berg-Huginn ehf. Samningur um kaupinn var undirritaður um síðustu helgi.Á vefsíðu Síldarvinnslunnar segir að Bergur hefur gert út togarann Berg VE 44 en hann var smíðaður hjá Karstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998 og hefur verið í eigu fyrirtækisins frá árinu 2005. Togarinn er 569 brúttótonn að stærð og með 1.300 hestafla vél. Aflaheimildir félagsins eru 0,36% af heildarkvóta á fiskveiðiárinu 2020-2021 eða sem nemur 1.514 þorskígildistonnum.
Bergur-Huginn átti fyrir kaupin togarana Vestmannaey og Bergey.
„Rekstur Bergs-Hugins hefur gengið vel. Síðastliðið ár var farið í að endurnýja skip félagsins og eru þessi kaup á Bergi ehf. liður í að styrkja enn stoðir okkar í Vestmannaeyjum,“ segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar um kaupin á vefsíðunni.
"Eigendur Bergs fóru þá leið að bjóða fyrirtækjum í Eyjum að koma að kaupum á félaginu og erum við hjá Bergi-Hugin afar þakklátir fyrir að hafa átt kost á að bjóða í félagið. Bergur-Hugin og Bergur eru tengd félög frá gamalli tíð og það gerir kaupin enn ánægjulegri.
Frá því að Síldarvinnslan kom að rekstri Bergs-Hugins hefur samstarfið við Eyjamenn verið afar gott, starfsmenn Bergs-Hugins hafa tekið okkur vel og við erum með toppfólk í öllum störfum hjá félaginu.“
Mynd: Guðmundur Alfreðsson