Orkumálinn 2024

Síldarvinnslan og Laxar fiskeldi fá háa styrki úr Orkusjóði

Nýverið var úthlutað 470 milljónum króna úr Orkusjóði til yfir 100 verkefna í orkuskiptum en það er stærsta úthlutun sjóðsins til þessa. Meðal þeirra fyrirtækja sem hlutu hæstu styrkina eru Síldarvinnslan í Neskaupstað sem hlaut styrk upp á 19,5 milljónir króna og Laxar fiskeldi á Eskifirði 15 milljóna króna styrk. Síldarvinnslan til að landtengja uppsjávarskip og Laxar fiskeldi til að rafvæða fóðurpramma sína.

 

Landtengja uppsjávarflotann
Verkefnastyrkur Síldarvinnslunnar fer í landtengingu uppsjávarskipa en fyrir rúmri viku síðan urðu þau tímamót að Vilhelm Þorsteinsson EA var landtengdur á meðan löndun á makrílafla fór fram. Landtenging uppsjávarskipa felst í því að skipið fær raforku úr landi til að kæla aflann og dæla honum í land í stað þess að nýttur sé vélbúnaður til þess sem brennir olíu. Auk Vilhelms Þorsteinssonar er Börkur NK með búnað svo hægt sé að landtengja hann og unnið er að því að koma slíkum búnaði í Beiti NK.

 

Þegar öll uppsjávarskip sem landa í Neskaupstað eru komin með slíkan búnað er gert ráð fyrir að olíunotkun minnki um 300 þúsund lítra á ári. „Þetta er stórt og jákvætt skref í orkuskiptum íslensks sjávarútvegs. Þetta verkefni er búið að taka okkur nokkur ár í þróun og undirbúningi og þar höfum við átt í góðu samstarfi við verkfræðstofuna EFLU, auk þess sem samstarf við Rarik og framleiðanda búnaðarins hefur verið afar gott. Þetta eru 500 kílówött sem við erum að tengja við skipin og tæknilega þarf þetta að ganga upp svo ekki komi högg á kerfin. Við fyrstu sýn virðist þetta vera mjög notendavænt og ganga smurt fyrir sig þannig að skipverjar verða ekki varir við þegar ljósavél dettur út og landrafmagnið tekur við. Við erum að fara úr því að nota olíu til kælingar, dælingar og keyrslu skips við löndun yfir í að nota rafmagn,“ sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, nýverið við heimasíðu fyrirtækisins.

 

Stefna á að fóðurprammarnir verði rafknúnir
Laxar fiskeldi stefna að því að rafvæða alla fóðurpramma fyrirtækisins og hætta að knýja þá með olíu. Nýjasti fóðurprammi fyrirtækisins, Fenrir, er útbúinn til að ganga fyrir rafmagni en til þess að hann nýtist svo þarf þriggja fasa rafmagn á svæðið. Verkefnastyrkurinn úr Orkusjóði á að nýtast til að að rafvæða fóðurpramma við sunnanverðan Reyðarfjörð.

 

„Við erum búin í samstarfi við RARIK að fara í þriggja fasa rafmagn í norðanverðum Reyðarfirðinum, leggja þriggja fasa rafmagn hérna norðan megin og erum í viðræðum við RARIK núna ásamt sveitarfélaginu að skoða það að leggja þriggja fasa rafmagn í sunnanverðum Reyðarfirðinum. Og þegar það verður komið getum við verið með alla prammana okkar á öllum staðsetningum á rafmagni. Markmiðið með þessu er náttúrulega fyrst og fremst að minnka vistspor framleiðslu okkar. Það er nóg rafmagn hér fyrir austan og þess vegna ætlum við að nýta okkur það tækifæri að geta keyrt fóðurprammana okkar á rafmagni. Ég vonast til þess að við náum að koma sunnanverðum Reyðarfirði eins fljótt og auðið er í það verkefni líka þannig að þá verði allur Reyðarfjörður undir og keyrður áfram af grænni orku,“ sagði Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, við RÚV í vor.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.