Síldarvinnslan ræður til sín fimm nýja stjórnendur

Síldarvinnslan hefur ráðið fimm nýja stjórnendur til starfa. Þetta kemur fram á vefsíðu fyrirtækisins. Einn þeirra sem lætur af störfum er Gunnar Sverrisson eftir 47 ára starfsferil.

„Fáir eða engir hafa jafn mikla reynslu af störfum við fiskimjölsiðnaðinn og Gunnar og hefur Síldarvinnslan verið afar heppin að fá að njóta starfskrafta hans,“ segir á vefsíðunni.

„Í stöðu rekstrarstjóra útgerðar var ráðinn Grétar Örn Sigfinnsson. Grétar er skipa- og véltæknifræðingur að mennt en hann hefur síðustu árin stýrt viðhaldsmálum í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hann hefur mikla reynslu af viðhaldsmálum í sjávarútvegi og hefur einnig starfað á þeim vettvangi hjá Alcoa Fjarðaáli, Mannviti, Bechtel og fleiri fyrirtækjum. Grétar mun taka við starfi rekstrarstjóra útgerðar af Karli Jóhanni Birgissyni sem lætur af störfum á haustmánuðum eftir langt og afar farsælt starf hjá fyrirtækinu...“segir á vefsíðunni.

„Til að stýra viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu hefur verið ráðinn Ívar Dan Arnarson. Ívar er vélstjóri og rafvirki að mennt og hefur hann starfað að viðhaldsmálum í fiskiðjuverinu sl. þrjú ár. Áður gegndi Ívar starfi vélstjóra á Bjarti NK og Barða NK og starfaði sem vélvirki hjá Launafli á Reyðarfirði sem annast viðhaldsverkefni í álveri Alcoa Fjarðaáls.

Í stöðu rekstrarstjóra uppsjávarfrystingar var ráðinn Geir Sigurpáll Hlöðversson. Geir Sigurpáll er verkfræðingur að mennt og hefur mikla reynslu af iðnaði, en hann starfaði hjá Alcoa-Fjarðaáli frá upphafi og fram á síðasta ár. Síðustu fimm árin hjá Alcoa Fjarðaáli gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra málmsteypu, en var áður framkvæmdastjóri umhverfis-, heilsu- og öryggismála.

Þá hefur Hafþór Eiríksson verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja. Hafþór er vél- og orkutæknifræðingur að mennt og hefur gegnt starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað frá árinu 2016. Áður starfaði Hafþór sem viðhaldssérfræðingur hjá Alcoa Fjarðaáli. Hafþór tekur við starfinu af Gunnari Sverrissyni sem hefur sinnt  því frá árinu 2012 ásamt því að gegna starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar á Seyðisfirði.“

Að lokum segir að við starfi Gunnars Sverrissonar sem verksmiðjustjóri á Seyðisfirði tekur Eggert Ólafur Einarsson. Eggert er meistari í járniðnum og gegndi áður starfi verksmiðjustjóra fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík frá árinu 1998.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.