Síldarvinnslan tók stökk í gær eftir jákvæða afkomuviðvörun
Gengi Síldarvinnslunnar í Kauphöllinni hækkaði um hátt í 4% eftir að fyrirtækið sendi frá sér viðvörun um að afkoma þess á síðasta ársfjórðungi yrði betri en búist var við.
Samkvæmt afkomuspá, sem gerð var fyrr á árinu, var gert ráð fyrir að hagnaður félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði yrði 78-84 milljónir dollara, eða 9,8-10,3 milljarðar króna.
Við vinnu á níu mánaða uppgjöri félagsins kom í ljós að hagnaðurinn stefnir í að verða töluvert betri en ráð var fyrir gert. Endurskoðuð áætlun gerir nú ráð fyrir 96-104 milljóna dollara hagnaði, eða 11,8-12,8 milljörðum króna.
Í tilkynningu segir að helstu ástæður þessa séu hærri afurðaverð en reiknað var með. Auk þess hefur reksturinn almennt gengið vel og veiðar að hluta verið umfram áætlanir.
Jákvætt eftir krefjandi ár
Síldarvinnslan tók ágætlega við sér í Kauphöllinni í gær, hækkaði strax um 3 krónur á hlut eða 3,6% og endaði í 85,5 krónum á hlut. Það er þó alls ekki sögulega hátt, gengið var álíka í byrjun mánaðarins áður en tilkynnt var um úthlutun byrjunarkvóta í loðnu fyrir næstu vertíð.
Gengið félagsins hefur almennt verið á niðurleið á þessu ári, nær samfleytt frá því að vonir um loðnu urðu að engu á fyrsta ársfjórðungi. Þá hefur árið verið erfitt hjá Arctic Fish, fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum sem Síldarvinnslan á hlut í. Níu mánaða uppgjörið verður birt 27. nóvember.
Góð síldarvertíð
Af útgerð Síldarvinnslunnar er annars það að frétta að skip félagsins luku síldveiðum úti fyrir Austfjörðum í byrjun síðustu viku. Sú vertíð gekk vel. Stund er því milli stríða hjá uppsjávarskipunum. Blængur kom í gær til hafnar úr sinni fyrstu veiðiferð eftir að hafa verið í slipp.