Síminn, Seyðisfjörður og Vélsmiðjan í forgangi

Munir sem tengdust sögu símans á Seyðisfirði, Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar og byggðasögu Seyðisfjarðar voru settir í forgang við björgunaraðgerðir úr rústum Tækniminjasafns Austurlands eftir aurskriðurnar í desember. Forstöðumaður hjá Þjóðminjasafninu segir aðgerðirnar hafa reynt á fólk persónulega og faglega.

„Það var fljótt ljóst að það yrði að grisja safnkostinn, ekki væri fýsilegt að bjarga öllu og þetta þyrfti að gera hratt og örugglega. Þess vegna var sett upp grisjunaráætlun.

Starfshópur hafði verið að störfum við mótun safnastefnu árið áður og því lá fljótt fyrir hvaða línur átti að leggja. Við lögðum ekki mikið á okkur fyrir erlendar tækniminjar en Vélsmiðjan skipti máli, munir frá símanum og svo tækniminjar frá Seyðisfirði,“ segir Ágústa Kristófersdóttir.

Ágústa, sem er framkvæmdastjóri safneignar Þjóðminjasafnsins, ræddi björgunarstarfið á fyrirlestinum „Tækniminjasafnið á Seyðisfirði 124 dögum síðar“ nýverið. „Þetta var verkefnið sem lét engan ósnortinn. Það reyndi á fólk, ekki bara faglega getu þess heldur líka persónulegan styrk.“

Samhent vinna

Ágústa rakti hvernig fyrst eftir stóru skriðuna 18. desember, sem eyðilagt stóran hluta Tækniminjasafnsins, hafi björgun persónulegra muna íbúa af svæðinu gengið fyrir. Fyrsta beina aðkoma Þjóðminjasafnsins hafi verið tíu dögum síðar og þá verið byrjað að meta hvað hægt væri að gera.

Í byrjun janúar kom menntamálaráðherra, ásamt þjóðminjaverði og forstöðumanni Minjastofnunar, austur til að skoða. Ágústa segir þá ferð hafa sett aukinn kraft í vinnuna, ljóst hafi orðið að grípa þyrfti til víðtækra aðgerða og fjármagn verið tekið frá í björgunaraðgerðir.

Síðan hafi Þjóðminjasafninu verið falið að leiða verkefnið. Vinnan var mikil, meðal annars var Lilja Árnadóttir, sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins, kölluð aftur úr starflokum en hún ætlaði að hætta um áramótin. Í kjölfarið hófust síðan reglubundnar heimsóknir sérfræðinga Þjóðminjasafnsins og annarra safna sem veittu heimamönnum aðstoð við vinnuna.

Ágústa sagði allir sem að verkinu hefðu komið verðskulda þakkir fyrir að leggja sig fram og láta það ganga vel. „Ég hef starfað lengi í stjórnsýslunni en ég hef sjaldan séð hana jafn samhenta og í þessu máli. Yfirleitt má segja að allt hafi gengið smurt og allir búnir að taka á sig þau verkefni sem þeir töldu á sinni könnu.“

Heldur áfram í sumar

Verkefnið var víðtækt. Ekki bara þurfti að bjarga munum úr aurnum, heldur tæma hús sem enn stóðu og skemmst höfðu illa. Ótrúlegt verk hefði verið unnið í byrjum mars þegar Angró og Skemman voru tæmd á tveimur dögum og munir úr þeim flokkuð. Þeir eru nú í bráðabirgðahúsnæði. „Skortur á geymsluhúsnæði er stærsta áskorunin. Það sem þarf hefur ekki fundist.“

Að undanförnu hefur verið unnið að grisjun safnkostsins og er von á sérfræðingum austur til áframhaldandi vinnu á næstu dögum. Í sumar er síðan gert ráð fyrir að nemar í safnafræði komi austur til vinnu.

Ágústa segir að verkefnið hafi verið afskaplega lærdómsríkt og áhersla verið lögð á að skrásetja ferlið vel. „Þetta er ótrúlegt verkefni fyrir Þjóðminjasafnið að taka þátt í sem höfuðsafn. Við áttum okkur á að það er mikilvægt bakland fyrir önnur söfn þegar í harðbakkann slær. Við vonum að safnið læri af verkefninu og geti tekið vel á móti slíkum verkefnum í framtíðinni, ásamt öðrum aðilum minjavörslunnar, ef þarf.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.