Sjö milljónum veitt til samfélagseflandi verkefna á Breiðdalsvík
„Styrkirnir skipta mjög miklu máli og gera það að verkum að við getum byggt upp fjölbreyttara samfélag,“ Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells, en sjö milljónum króna úr verkefninu Breiðdælingar móta framtíðina var úthlutað til fjórtán samfélagseflandi verkefna í Breiðdalshreppi í maí. Styrkirnir eru hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.
Tvö verkefni hlutu hæstu styrkina að þessu sinni, eða hvort um sig 1.200.000 krónur. Annars vegar Hótel Bláfell fyrir verkefnið Iceland by Axel, upphleypt Íslandskort, sem til stendur að setja upp í gamla frystihúsinu. Hins vegar foreldrafélag leik- og grunnskóla Breiðdalsvíkur til uppsetningar ærslabelgs á staðnum.
Áætlaður heildarkostnaður verkefna er um 52 milljónir en sótt var um styrki fyrir 22 milljónum. Kynjahlutföll á milli þeirra sem hlutu styrki eru átta konur og sex karlar.
Hótel Bláfell hlaut tvo styrki
Hótel Bláfell hlaut tvo styrki í ár, Iceland by Axel og einnig 600.000 krónur fyrir verkefnið funda- og ráðstefnubærinn Breiðdalsvík.
„Verkefnið funda- og ráðstefnubærinn Breiðdalsvík er hugsað til að koma þessum glæsilega sal í Frystihúsinu meira í notkun og reyna að skapa atvinnu þar lengur en rétt yfir sumarið, en þar er alveg fyrirtaks ráðstefnuaðstaða.“
Friðrik segir bæði verkefnin vera í vinnslu og sýningin Iceland by Axel sé nánast uppsett í hliðarsal í Frystihúsinu, þó svo formleg opnun á henni verði ekki fyrr en í haust. Um er að ræða 20 fermetra upphleypt Íslandskort úr steinsteypu eftir Axel Helgasonmyndhöggvara frá árinu 1934. Auk þess verður yfirlitssýning af listamannaferli Axels sem fæddur var árið 1909.
„Ég set þessa sýningu upp í samstarfi við barnabörn Axels. Ég var búinn að leita að ferðamannasegli fyrir Breiðdalsvík í mörg ár þegar ég sá frétt á Mbl.is í fyrrasumar að það væri munaðarlaust Íslandskort í geymslu í Reykjavík og óskað var eftir einhverjum til þess að fóstra það. Ég hafði samband og var bent á Jón Axel Ólafsson, sem er barnabarn Axels. Úr varð að kortið kom austur og nú er sýningin nánast alveg tilbúin, en þó öllum opin og frítt inn.
Kortið hefur vakið gífurlegan áhuga ferðamanna sem hérna hafa komið, sérstaklega þó sagan að steinsteypt Íslandskort frá 1934 hafi varðveist, það er nokkuð merkilegt.“
Heildarlisti yfir styrkþega árið 2018:
Breiðdalsbiti ehf; Tækjakaup Breiðdalsbita - 500.000
Anna Margrét og Jónína Björg Birgisdætur; Steinarnir tala - steinasafn í Fagradal - 500.000
Anna Margrét og Jónína Björg Birgisdætur; Viðskiptaáætlun - 100.000
Tinna Adventure; Markaðssetning á Bandaríkjamarkaði - 300.000
Jórunn Dagbjört Jónsdóttir; Tækjakaup í Íþróttamiðstöð Breiðdalshrepps - 500.000
Goðaborg ehf; Goðaborg fiskvinnsla - þjálfun starfsfólks - 300.000
Elís Pétur Elísson og samstarfsaðilar; Skotíþróttafélag Breiðdælinga – stofnun - 400.000
Breiðdalssetur; Sýningar í Breiðdalssetri - 300.000
Breiðdalshreppur/Viðburðastjórn; Menningarhátíð - 300.000
Hótel Bláfell; Iceland by Axel - 1.200.000
Hótel Bláfell; Funda- og ráðstefnubærinn Breiðdalsvík - 600.000
Sigríður Stephensen Pálsdóttir; Þvottaveldið/strauvél - 500.000
Helga Rakel, f.h. foreldrafél. leik- og grunnskóla; Ærslabelgur - 1.200.000
Beljandi Brugghús; Rock the Boat - 300.000