Skip to main content

Skera fjármagn til nýs Seyðisfjarðarskóla við nögl í drögum að nýrri fjárfestingaráætlun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. sep 2025 10:14Uppfært 19. sep 2025 10:43

Samkvæmt drögum að fjárfestingaráætlun Múlaþings fyrir næsta ár verður það fjármagn sem eyrnamerkt er byggingu nýs grunnskóla Seyðisfjarðar skorið niður um rúm 70% frá því sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Þetta er heimastjórn Seyðisfjarðar ósátt við og bókaði alvarlegar athugasemdir í bókun á síðasta fundi sínum enda gæti þetta haft í för með sér að framkvæmdin dragist enn frekar á langinn. Samkvæmt drögunum verður framlagið aðeins 65 milljónir króna á næsta ári í stað 225 milljóna sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. 

Í heimastjórninni situr Jón Halldór Guðmundsson og hann segir afleitt ef framkvæmdum við nýja skólann seinkar um eitt ár sem er líklegt ef niðurskurðurinn verður raunverulega jafn mikill og drögin gefa til kynna.

„Þetta er ansi brýnt mál enda núverandi skólahúsnæði, þó fallegt sé, ekki vel fallið til skólastarfs. Það er búið að tala lengi um þörfina á nýju skólahúsnæði og mjög miður ef það dregst enn frekar að ljúka þeirri byggingu. Við töldum því eðlilegt að mótmæla þessu á fundinum okkar um daginn.“

Samkvæmt fjárhagsáætlun Múlaþings áttu 50 milljónir að fara í verkið á yfirstandandi ári, 225 milljónir á því næsta, 450 milljónir 2027 og svo 95 milljónir 2028 þegar framkvæmdum á að ljúka.

Að loknu umsagnarferli hjá allmörgum ráðum og stjórnum Múlaþings mun umhverfis- og framkvæmdaráð taka fjárfestingardrög næsta árs fyrir að nýju að teknu tilliti til umsagna allra. Upphæðin sem eyrnamerkt er skólaframkvæmdum gæti því tekið frekari breytingum áður en yfir lýkur.

Skólahúsnæði Seyðisfjarðarskólans reisulegt og fallegt en hentar miður vel til kennslu. Lengi hefur verið beðið nýrrar skólabyggingar. Mynd úr safni