Skert þjónusta eða lokanir hjá fyrirtækjum og stofnunum vegna kvennaverkfalls
Þjónusta er annað hvort skert eða lokað hjá mörgum fyrirtækjum og stofnunum á Austurlandi í dag vegna kvennaverkfalls. Viðburðir verða á Egilsstöðum og Vopnafirði í tilefni dagsins.
Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands verður önnur þjónusta en bráðaþjónusta takmörkuð eftir hádegi. Öryggi verður tryggt og sólarhringsþjónusta á fæðingardeild, hjúkrunarheimilum og sjúkradeild. Fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar að 88% starfsfólks séu konur.
Lokað er á sýsluskrifstofunum á Eskifirði, Egilsstöðum og Vopnafirði en opið á Seyðisfirði. Í tilkynningu kemur fram að 80% starfsfólks embættanna í landinu séu konur.
Í Fjarðabyggð loka grunnskólarnir klukkan 13 og leikskólarnir klukkan 14. Skólafrístundir verða lokaðar á öllum stöðum og sundlaugin á Fáskrúðsfirði. Í tilkynningu segir að áhrifa kvennaverkfallsins eigi eftir að gæta í öðrum stofnunum en öryggi verði alltaf tryggt.
Á Vopnafirði opnuðu hreppsskrifstofan, skólinn, leikskólinn, bókasafnið og íþróttahúsið ekki í dag. Þar verður gengin kröfuganga frá skólanum að félagsheimilinu klukkan 13:45 og síðar haldin dagskrá.
Á Egilsstöðum fer ganga af stað klukkan 13:30 frá Söluskála N1 að Valaskjálf þar sem frekari dagskrá verður. Rútuferðir verða þangað frá Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.
Fleiri stofnanir og fyrirtæki eru með annað hvort lokað eða verulega skerta þjónustu í dag. Þannig eru aðeins skrifstofur AFLs á Höfn, Reyðarfirði og Egilsstöðum opnar í dag.