Skiptar skoðanir um lausagöngu katta
Framboðin í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi hafa fæst fastmótaðar skoðanir um hvernig bregðast eigi við lausagöngu katta. Jafnvel er dæmi um ágreining innan lista um hvaða leiðir skulu farnar.Þetta var meðal þess sem rætt var á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs sem haldinn var í gær. Að loknum framsögum voru teknar inn spurningar frá íbúum og snéri sú fyrsta að afstöðu framboðanna til lausagöngu katta í þéttbýli.
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, sagði spurninguna koma „vel á vondan“ því hann væri rólegur gagnvart köttum en meðframbjóðandi hans á fundinum, Jónína Brynjólfsdóttir, léti þá „fara meira í taugarnar á sér.“ Þau væru því ekki sammála. Hann sagðist ekki álíta málið flokkspólitískt og vart svarað á þessum vettvangi.
Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagðist framboðið ekki hafa opinbera skoðun á lausagöngu katta. Ítrekað hefði þó verið kvartað undan henni, einkum á vorin og því ætti að reyna að stemma stigu við henni, meðal annars með merkingum.
Kristjana Sigurðardóttir frá Austurlistanum, kvaðst ekki hafa skoðun á málinu. Ekki væri nýtt að kettir léku lausum hala og dræpu fugla. Hún sagðist telja æskilegt að stemma stigu við fjölgun katta með að höfða til eigenda þeirra um að huga að ferðum dýra sinna.
Þórlaug Alda Gunnarsdóttir frá Miðflokknum kvaðst vilja nýta það leyfisgjald sem kattaeigendur greiddu til að veita þeim þjónustu, svo sem afslátt af geldingum. Hún lýsti yfir ánægju með starf Villikattafélagsins sem þörf væri að halda áfram.
Helgi Hlynur Ásgrímsson frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sagði framboðið ekki hafa sérstaka stefnu. Hann væri hins vegar hræddur við ketti og því ekki vel við þá.
Hverjar eru áherslurnar?
Fimm framboð eru í sveitarfélaginu og hófst fundurinn með stuttri kynningu á stefnumálum þeirra. Fjórir þeirra eru beintengdir stjórnmálaflokkum á landsvísu og endurspegluðu framsöguræðurnar þau sjónarmið að miklu leyti.
Miðflokkurinn lýsti hug á að mynda skipulag til langs tíma, auka atvinnu og tekjur í nýju sveitarfélagi og gera stjórnsýsluna skilvirka. Þröstur Jónsson oddviti sagði flokkinn vilja „selja okkur inn á fjárfesta og atvinnufólk.“
Jónína sagði Framsóknarflokkinn tefla fram lista þrautreynds stjórnmálafólks. Það væri nauðsynlegt í ljósi þess hversu stutt kjörtímabilið væri. Hún sagði framboðið vilja fylgja eftir framkvæmdum sem þegar hefðu verið ákveðnar, tryggja fjölbreytt mannlíf og fjölga leikskólaplássum.
Jódís Skúladóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, lagði áherslu á umhverfis- og loftslagsmál og kvaðst hafna skammtímagræðissjónarmiðum. Hún sagði framboðið hófstillt í loforðaflaumi. Hún gagnrýndi karllæga stefnu í atvinnumálum en vildi líkt og Framsóknarfólk fjölga leikskólaplássum.
Gauti sagði Sjálfstæðisflokkinn vilja einfalda og skilvirka stjórnsýslu og farsæla sameiningu. Lækka skattbyrði samhliða eflingu á þjónustu, markaðssetja hafnir fyrir skemmtiferðaskip og koma flugvellinum á Egilsstöðum betur á framfæri á alþjóðavísu.
Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði samgöngumálin, einkum Fjarðarheiðargöng og heilsársveg yfir Öxi, grunninn að vel heppnuðu sameinuðu sveitarfélagi. Greiða þyrfti niður skuldi um leið og þjónustustigi yrði viðhaldið ásamt því að gera sveitarfélagið að eftirsóttum búsetukosti.
Hægt er að horfa á upptöku frá fundinum hér að neðan.