Skiptar skoðanir um legu vegarins frá væntanlegum göngum

Þrjú framboð af fimm vilja að þungaumferð úr væntanlegum Fjarðarheiðargöngum verði beint suður fyrir byggðina á Egilsstöðum. Frambjóðendur eru heldur ekki fyllilega sammála um áherslur í skipulagsmálum.

Vegagerðin kynnti í sumar að þrjár veglínur væru til skoðunar. Miðleiðin fer í gegnum bæinn niður núverandi Fagradalsbraut að mestu, suðurleið fer inn fyrir þéttbýlið og niður á þjóðveginn þar en norðurleiðin liggur út fyrir þéttbýlið og tengist inn á núverandi Seyðisfjarðarveg.

Framboðin voru spurð út í veglínurnar á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóð fyrir í samstarfi við sveitarfélagið Fljótsdalshérað á þriðjudagskvöld.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Austurlista og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sögðust vilja fara suðurleiðina og beina umferðinni, einkum þungaumferðinni, þá leið og létta þannig á miðbænum.

Óttast að kljúfa byggðina

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, sagði suðurleiðina hins vegar lýsa skammsýni og kvaðst telja að hún þrengdi að framtíðar landi undir íbúabyggð. „Miðleiðin er ómöguleg því hún klýfur byggðina. Það er líklegt að íbúabyggðin þróist inn á það svæði sem suðurleiðin liggur um og stutt í að hún kljúfi það líka.“

Þröstur sagði framboðið því vilja norðurleiðina með nýrri brú yfir Eyvindará við Melshorn. Hann bætti við að bæjarfulltrúi Miðflokksins hefði komið í veg fyrir að núverandi bæjarstjórn hefði í flýti tekið ákvörðun um leiðarvalið.

Enn verið að meta leiðirnar

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins og forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, tók ekki undir lýsingu Þrastar af atburðarásinni í bæjarstjórninni. „Ég kannast ekki við þessa lýsingu á starfi nefndarinnar. Það var sátt um að skoða þrjá kosti.“

Hann sagði sérstakt að framboðin væru búin að móta sér ákveðnar skoðanir þegar Vegagerðin væri að safna gögnum og meta leiðirnar. Hann viðurkenndi þó að honum þætti suðurleiðin spennandi kostur. Ekki væri búið að ákveða endanlega hvar hún kæmi niður og því enn færi á að færa hana til ef þyrfti. Hann sagðist þó telja hana veita „býsna mikið pláss“ fyrir þróun byggðarinnar.

Á að vera tilbúið deiliskipulag fyrir iðnaðarlóðir?

Fleiri spurningar bárust um skipulagsmál í þéttbýlinu á Héraði því einnig var spurt út í hvernig hægt væri að tryggja framboð á iðnaðarlóðum.

Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, benti á að iðnaðarsvæði væri skilgreint á aðalskipulagi í Fellabæ. Hann sagði mestu skipta fjárfesta að svæði væru skilgreind í aðalskipulagði frekar en lóðir af ákveðinni stærð væru til í deiliskipulagi. Það yrði unnið þegar fjárfestar kæmu fram með sínar hugmyndir.

Stefán Bogi sagði rétt að aðalskipulagið skipti mestu máli en deiliskipulagið skipti líka máli. Gott væri að hafa staðlaðar iðnaðarlóðir tilbúnar í deiliskipulagi því einfaldara væri að breyta því en vinna frá grunni ef beiðnir bærust um sérhæfðari lóðir.

Hann sagði þó mestu skipta að sveitarfélagið hefði burði til að vinna skipulagsvinnuna hratt og vel. Það hefði ekki alltaf verið staðan en væri eitt af markmiðum sameiningarinnar. „Ég held að það sé dauðafæri með sameiningu til að laga þessi mál með aukinni sérhæfingu.“

Þröstur Jónsson frá Miðflokki taldi einnig rétt að hluti iðnaðarlóðanna væri deiliskipulagður. „Þegar rekstraraðilar koma er mikilvægt að þeim sé svarað fljótt og reynt að liðka fyrir eins og hægt er frekar en mæta þeim með stífleika því þeirra lóð fer aðeins inn á þá næstu. Við þurfum líka að líta til langs tíma um hvar við viljum byggja upp og fá aðalskipulag sem nær langt fram í framtíðina.“

Jódís Skúladóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði að framboðið vildi ráðast í gerð aðalskipulags fyrir allt sveitarfélagi strax eftir kosningarnar. Mikilvægt væri að gott aðgengi væri að lóðum, hvort sem er til atvinnurekstrar eða búsetu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.