Skip to main content

Skiptir máli að undirbúa kynslóðaskipti í fyrirtækjum vel

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. feb 2025 11:20Uppfært 14. feb 2025 11:21

Afar mismunandi skattstofnar myndast út frá því hvaða leið er farin við kynslóðaskipti fyrirtækja. Lögfræðingur segir skipta máli að undirbúa þau tímanlega, til að tryggja samfellu í rekstri.


Kristín Sif Magnúsdóttir Laxdal, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði KPMG, ræddi mismunandi aðferðir við kynslóðaskipti í fyrirtækjum á skattadegi sem fyrirtækið stóð fyrir á Egilsstöðum í gær. Með kynslóðaskiptum vísaði hún bæði til þess þegar afkomendur erfa rekstur eða þegar nýir aðilar kaupa fyrri rekstraraðila út.

Kristín Sif byrjaði á dæmi um fyrirtæki sem erfist. Samkvæmt lögum ber að greiða 10% af bókfærðu virði erfðafjár, en þar strax vandast málið við að skýra hvert þetta bókfærða virði er.

Hún tók dæmi af fyrirtæki sem metið væri á 200 milljónir króna sem þýðir að erfinginn þarf að greiða 20 milljónir. Þær þarf hann að leggja út með reiðufé, jafnvel fá lánað, en fær á móti ekki annað en hlutabréf í félaginu.

Ekki bara horft á verðmætaaukninguna


En fyrirtækið í dæminu gekk vel og nokkrum árum seinna bauð ótengdur aðili 400 milljónir í reksturinn, sem erfinginn samþykkti. Af því verða til 22% skatt af söluhagnaði, sem í dæminu er heildarsöluandvirðið, sem bætist þá við fyrri skattgreiðslu og er þá orðin 27% af heildarvirðinu eða hærri ef söluandvirðið er lægra.

Kristín Sif taldi marga sig eiga að telja borga skatt af verðmætaaukningunni í félaginu en svo væri ekki. Þar með upplifði fólk ósanngirni í gegnum að borga tvisvar skatt af sama stofni.

Að selja fyrirtækið allt eða bara reksturinn?


Í hinu dæminu sem Kristín nefndi seldu stofnendur fyrirtækið. Það er hægt að gera með að selja félagið sjálf eða aðeins rekstur þess. Ef fyrirtækið er selt borgar seljandinn 22% skatt en 20% ef reksturinn er seldur. Hins vegar þegar eigandinn vill ná söluandvirðinu út úr tómu félaginu þá þarf hann að borga 22% skatt af arði. Miðað við 400 milljóna sölu þá myndu eigendurnir hafa 312 milljónir út úr fyrra dæminu en 250 út úr því seinna.

Kristín Sif sagði vissulega væru til fleiri hliðar á því dæmi. Þetta væri kjarninn fyrir seljandann en á móti gæti kaupandinn haft skattalegt hagræði af því að kaupa reksturinn frekar en félagið.

Tryggja þarf samfellu í rekstri


Hún nefndi síðan fleiri álitamál eins og greiðslu kaupverðs. Algengt sé að greitt sé fyrir með hlutabréfum í öðrum félögum en seljandinn þarf engu að síður að borga skattinn í reiðufé, sem reynist mörgum snúið.

Þá sé þekkt að í fjölskyldufyrirtækjum séu eignir sem ekki tilheyra rekstri, jafnvel sumarhús erlendis. Dýrt og flókið geti verið að ná slíkri eign út úr félagi fyrir sölu.

Lykilniðurstaðan er að kynslóðaskipti geta verið tímafrek og flókin. Þess vegna skiptir máli að undirbúa þau tímanlega. Til dæmis þurfi að hlúa að starfsfólki til að tryggja samfellu í rekstri. Þess vegna byrji margir að undirbúa þau með margra ára fyrirvara.