Skip to main content

Skoða þarf aðstæður áður en rýmingu verður aflétt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jan 2025 07:59Uppfært 21. jan 2025 08:02

Ólíklegt er að rýmingum vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og í Neskaupstað verði létt fyrr en í fyrsta lagi um hádegi. Meta þarf aðstæður til fjalla áður en ákvarðanir verða teknar.


Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands hafa ekki borist nein tíðindi af snjóflóðum í nótt. Það kemur ekki á óvart, enda fáir á ferli og myrkvað.

Veðrið er orðið skaplegra og úrkoman er nánast úr sögunni. Búið er að opna flestar meginleiðir og verið að ryðja Vatnsskarð, sem ekki var opnað í gær.

Vonast er til að hægt sé að aflétta rýmingum í dag en tæplega 200 manns hafa síðustu tvo daga þurft að yfirgefa heimili sín vegna snjóflóðahættu. Engar ákvarðanir verða þó teknar um slíkt fyrr en eftir að bjart verður orðið.

„Það þarf að fara og kanna aðstæður en við reiknum með að aflétta rýmingunni meðan bjart verður,“ segir Magni Hreinn Jónsson fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar sáust fimm snjóflóð af stærðinni 3 á Norðfirði í gær og eitt úr Harðskafa í Eskifirði. Þá féll lítið flóð í Reyðarfirði. Eitt flóðanna við Neskaupstað, úr Tröllagili fór alveg að snjóflóðavarnakeilum.

Mynd: Landsbjörg