Skólastofur þrefalt dýrari en áætlað var

Útlit er fyrir að kostnaður við skólastofur sem keyptar voru síðasta haust til að bregðast við húsnæðisvanda Seyðisfjarðarskóla verði tæplega þrefalt meiri en upphaflegar áætlanir gert var ráð fyrir. Ekki hefur enn verið hægt að taka stofurnar í notkun þar sem fjármagn skortir til að útbúa þær samkvæmt reglum.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkti kaup á tveimur gámahúsum, alls um 160 fermetrum, sem gegna áttu hlutverki skólastofa til að leysa að einhverju leyti úr langvarandi húsnæðisvanda skólans í ágúst í fyrra.

Stofurnar komu til landsins í annarri viku september og voru settar á grunn sinn þann 10. september. Í frétt á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar frá þeim tíma segir að stefnt sé að taka stofurnar í gagnið hið fyrsta.

Stofurnar standa hins vegar enn ónotaðar. Í svari við fyrirspurn Austurfréttar til Múlaþings, sem varð til með sameiningu Seyðisfjarðar við þrjú önnur sveitarfélög í byrjun október, segir að ástæðan fyrir að stofurnar hafi ekki enn verið teknar í notkun sé að dýrara hafi reynst að útbúa þær sem kennslustofur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

Rúmar 40 milljónir vantar í verkið

Upphaflegur áætlaður kostnaður við framkvæmdina var 22,9 milljónir. Áfallinn kostnaður er orðinn 20,3 milljónir. Inni í því eru kaup á húsum, uppsetning þeirra á grunni, hönnun vegna grenndarkynningar og byggingaleyfi.

Ekki var ráðist í leyfisumsókn eða grenndarkynningu fyrr en skólastofurnar voru komnar á sinn stað og Múlaþing orðið til. Grenndarkynningu lauk um miðjan desember og bárust engar athugasemdir. Á fyrsta fundi sínum á þessu ári lagði heimastjórn Seyðisfjarðar til að byggingaleyfi yrði gefið út. Í bókun sinni leggur heimastjórn áherslu á að gert verið deiliskipulag fyrir skólasvæðið sem er ekki til staðar í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi vantar enn 42,8 milljónir í verkið sem þýðir að heildarkostnaður er ætlaður 63,1 milljón, 40,2 milljónum meira en áætlað var. Gangi það eftir verður verkið tæplega þrefalt dýrara en fyrirhugað var.

Á fjárhagsáætlun Múlaþings, sem byggði á áætlun Seyðisfjarðarkaupstaðar, voru áætlaðar 10 milljónir í verkið í ár. Í svari Múlaþings segir að einingarnar séu algerlega hráar að innan, eins og fokhelt hús. Þær uppfylla ekki kröfur sem gerðar eru til kennslustofa í samræmi við reglur en helstu liðir sem uppfylla þarf eru eldvarnir, loftræsting, hljóðvist og aðgengi.

Gagnrýndi hringl og meðferð á almannafé

Málið var rætt á síðasta bæjarstjórnarfundi Múlaþings, en kveikjan að því var bókun fulltrúa í heimastjórn Seyðisfjarðar á fundi hennar skömmu áður. Fyrir hann höfðu þrír starfsmenn Múlaþings fundað með fulltrúum úr heimastjórn. Í bókun heimastjórnar er vísað í minnisblað frá fundinum og sagt að misskilnings hafi gætt við útfærslu á bráðabirgðakennslustofunum, í staðinn fyrir hönnun á bráðabirgðalausn hafi verið ráðist í fullnaðarhönnun eins og um varanlega lausn væri að ræða. Austurfrétt óskaði eftir afriti af minnisblaðinu en fékk höfnun á þeim forsendum að málið væri enn í vinnslu.

Á fundi heimastjórnarinnar lagði Ólafur Hr. Sigurðsson fram bókun þar sem hann gagnrýndi vinnubrögð í húsnæðismálum Seyðisfjarðarskóla. Þar segir hann meðal annars að horft hafi verið framhjá niðurstöðum húsnæðisgreiningar sem starfsmenn skólans hafi unnið og flutningur bókasafns bæjarins og tónskólans í nýrra húsnæði skólans hafi ekki reynst vel. Þetta hringl sé orðið of dýrt og óásættanleg meðferð á almannafé. Ólafur leggur til að húsin sem keypt voru í fyrra verði seld sem fyrst og lagst af alvöru yfir húsnæðisþörf skólans.

Loksins gripið til aðgerða eftir áralangar umræður

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans og síðasti forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar, sagðist á fundi bæjarstjórnar hafna fullyrðingum Ólafs um að vilji starfsmanna skólans hefði verið hundsaður heldur hefðu skólastjórnendur verið hafðir með í ráðum fyrra. Árum saman hefðu húsnæðismál skólans verið til umræðu meðan ómældum upphæðum verið varið til til að teikna nýjan skóla aftur og aftur en alltaf hefði skort fjármagn til framkvæmda.

Hún lýsti bókun Ólafs sem smættun á tilraunum til lausna á húsnæðisvandanum og blauta tusku í andlit nemenda og starfsfólks. Fullnaðarhönnun á bráðabirgðalausn væru mistök sem þyrfti að skoða.

Elvar Snær Kristjánsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og fyrrum fulltrúi í bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar, sagði ósanngjarnt að vísa ábyrgðinni á skólastjórnendur, endanleg ákvörðun um kaupin hefði alltaf legið hjá bæjarstjórninni. Hann gagnrýndi einnig að húsunum væri komið upp á svæði sem væntanlega yrði nýtt undir varanlegt húsnæði þannig að við slíkar framkvæmdir þyrfti að byrja á að færa húsin.

Ekki hægt að skýla sér bakvið að lausnin sé tímabundin

Stefán Bogi Sveinsson, fulltrúi Framsóknarflokks og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings sem hefur haft málið á sinni könnun síðustu mánuði, sagði að horfa yrði frá aðdragandanum og einblína á lausn stöðunnar. Það yrði að gerast fyrir næsta skólaár, ekki væri útlit fyrir lausn á þessu skólaári. Verið væri að skoða hvernig hægt væri að bregðast við. Hann bætti við að mikilvægt væri að skoða lausnir til lengri tíma, einn af fylgifiskum sameiningar væri aukin geta til að ráðast í langtímalausn innan skynsamlegs tíma.

Stefán Bogi mótmælti orðum Hildar um að mistök hefðu verið gerð við hönnunina þannig hún hefði orðið umfangsmeiri en áður. „Ef setja þarf upp húsnæði fyrir starfsmenn skóla þarf það að standast ákveðnar kröfur. Að mínu viti er ekkert í þessu sem heitir bráðabirgða húsnæði. Ef við ætlum að byggja og gera klárt þarf húsnæðið að standast lög og reglugerðir sem gilda, nema fulltrúar séu tilbúnir að líta framhjá þessum reglum og það er ég ekki tilbúinn að gera. Ef mistök voru gerð þá var það að fara í ódýrari lausn með vísun til þess að hún væri tímabundin. Ég skil ekki hvernig þetta gat flokkast sem tímabundin lausn því engin varanleg lausn lá á borðinu,“ sagði hann.

Stefán Bogi viðurkenndi að það kynni að hljóma undarlega að þótt húsnæði sem væri í notkun stæðist ekki kröfur þá væri það svo að nýtt húsnæði yrði að standast þær. Ekki væri hægt að horfa framhjá því við gerð hönnun og kostnaðaráætlun. Niðurstaðan væri hins vegar sú að mun minna fé hefði verið áætlað í byrjun heldur en nú hefði komið á daginn. Hann ítrekaði þó nauðsyn þess að horfa fram á við og finna lausn sem nýttist skólanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.