Skora á sveitarstjórnir austanlands að beita sér fyrir lausn í kjaradeilu kennara
Fjölmennur hópur kennara gekk í dag áleiðis frá Valaskjálf að Tehúsinu á Egilsstöðum til að bæði sýna stuðning sinn við þá kennara í landinu sem þegar eru í verkfalli en jafnframt til að skora á sveitarstjórnir á Austurlandi að beita sér fyrir lausn kjaradeilu kennara við íslenska ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Ein sjö félög austanlands skrifa undir ályktunina þar sem segir að mikilvægt sé að sveitarfélögin á svæðinu, sem bera ábyrgð á að framfylgja grunnskólalögum, liðki fyrir viðræðum með því að leggja áherslu á að fjárfesta í kennurum.
Félögin sem um ræðir er Kennarasamband Austurlands, Svæðadeild Félags leikskólakennara á Austurlandi, Skólastjórafélag Austurlands, stjórnendur leikskóla á Austurlandi og Félagsdeildir framhaldsskólakennara Menntaskólans á Egilsstöðum, Verkmenntaskólans í Neskaupstað og Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.
Alls eru þegar hafin eða hefjast á næstunni verkföll kennara við sautján skóla í landinu en eins og Austurfrétt greindi frá í gær er einn þeirra Egilsstaðaskóli þar sem verkföll hefjast 6. janúar ef ekki verður samið fyrir þann tíma. Í fyrstu atrennu á það verkfall að standa út janúarmánuð.
Ályktun félaganna sjö er svohljóðandi:
Mikilvægt er að sveitastjórnir, sem bera ábyrgð á að framfylgja grunnskólalögum á Íslandi, liðki fyrir viðræðum með því að leggja áherslu á að fjárfesta í kennurum. Stórt verkefni er fram undan sem er að tryggja öllum börnum menntaða kennara en skólarnir standa nú frammi fyrir stöðugt vaxandi mönnunarvanda, jafnt á meðal kennara sem stjórnenda.
Til að laða fólk í kennslu á ný þarf að setja menntamál á oddinn á landsvísu og tala af virðingu um kennarastarfið. Afar mikilvægt er að kennurum standi til boða samkeppnishæf laun og því er brýnt að leysa kjaradeiluna sem fyrst. Í samkomulagi sem skrifað var undir árið 2016 af KÍ, SÍS og íslenska ríkinu var staðfest að jafna skyldi laun og lífeyrisréttindi á milli markaða. Það samkomulag hefur ekki verið staðið við að fullu og er tímabært að standa við þær skuldbindingar.
Vinna þarf að bættum starfsaðstæðum kennara en verkefnafjöldi á herðum þeirra hefur aukist hratt á liðnum árum. Á sama tíma er fjöldi nemenda á hvern kennara víða of mikill. Tryggja þarf að skólahúsnæði sé öruggt og heilsusamlegt. Mörg dæmi eru um það víðs vegar um landið að rakaskemmdir og mygla hafi ógnað heilsu kennara og nemenda.
Undirrituð árétta mikilvægi þess að sveitarstjórnarfólk sem veitir bæjarfélaginu forystu tali ætíð á jákvæðan og uppbyggilegan hátt til kennara jafnt á opinberum vettvangi sem annars staðar og leggi sig fram við að setja sig inn í skólamál og starfsaðstæður skólafólks. Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og viljum að fagmennska og gæði séu ríkjandi í öllu skólastarfi. Til þess þarf vel menntaða, sátta kennara.
Kennarahópurinn lagði leið sína í Tehúsið þar sem staðan í kjaradeilu Kennarasambandsins og næstu skref voru reyfuð þeirra í millum. Mynd AE