Skriðurnar nýtt upphaf, ekki endir

Aurskriðurnar sem eyðilögðu stóran hluta bygginga Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði og feyktu hluta safnkostsins á haf út marka upphafið að nýjum kafla í sögu safnsins en ekki endalok þess að mati forstöðumanns. Mikil vinna er að baki en næg eftir við björgun muna og enduruppbyggingu.

„Við vorum búin að endurraða hluta safnsins og vorum að vinna safnstefnu. Við höfðum því alveg nóg að gera fyrir 18. desember,“ sagði Zuhaitz Akiuz, forstöðumaður safnsins, á fyrirlestri sem Þjóðminjasafnið hélt nýverið um vinnuna sem unnin hefur verið síðan í kringum safnið.

Hann sagði ríflega 20 manns hafa starfað við björgunarstarf á skriðusvæðinu, 10 hefðu grafið og 12-15 manns unnið úr því sem fannst frá 22. desember til 5. mars. „Þetta var eins og fornleifauppgröftur, sumt hafði færst marga metra úr stað.“

Stundum merkilegt hvað bjargaðist

Hann sagði áfallið hafa verið mikið fyrst og áhyggjur af miklum missi verðmætra heimilda. Fyrstu góðu fréttirnar hefðu borist á Þorláksmessu þegar fyrrum slökkviliðsstjóri Fljótsdalshéraðs hefði gengið beint að peningaskáp með verðmætustu skjölunum. „Stundum var ótrúlegt hvað hafði sloppið, einkum miðað við að nokkra metra frá var allt í kássu,“ sagði Zuhaitz.

Hann sagði Seyðfirðinga eðlilega hafa verið í áfalli eftir hamfarirnar, en fólk hefði einhent sér í björgunina, jafnvel þótt það hefði með naumindum sloppið lifandi úr skriðunum. „Það er jákvætt hvernig margir brugðust við.“

Munir safnsins voru fyrst í stað fluttir í fiskimjölsgeymslu Síldarvinnslunnar. Zuhaitz sagði það ekki hafa verið bestu aðstöðuna en fátt annað verið í boði. „Þið verðið að muna að þetta er fiskvinnsla og angar því eðlilega af fiski. Lyktin sat í fötunum okkar þegar við komum heim, við önguðum eins og harðfiskur,“ sagði hann hlægjandi. Munirnir eru nú í tímabundinni geymslu.

Prentsmiðja Dieter Roth horfin

Zuhaitz kvaðst telja að einna mesta tjónið væri í prentvélum Dieter Roths sem hefðu nær alveg horfið af sjónarsviðinu. Mögulega eru þær í sjónum en ólíklegt er að hægt sé að heimta þær þaðan. „Við höfum ekki getað séð það sem fór í sjóinn. Við vitum að það sekkur og verður erfitt að ná því. Við höfum enn von um að geta reynt að bjarga því en forgangsatriðið hefur verið að komast af hættusvæðinu,“ sagði hann.

Samhliða björgunarstarfinu hefur forsvarsfólk velt fyrir sér framtíð safnsins. Hluti Vélsmiðju Jóhanns Hanssonar stendur enn og nefndi Zuhaitz að víða um heim séu varðveittir hlutir mannvirkja, svo sem rómverskra rústa. „Það skiptir máli að sópa ekki öllu í burtu. Við eigum líka enn gamlan trébát og fyrstu dráttarvélina sem kom til Seyðisfjarðar. Við höldum í þau til að minnast þess sem gerst hefur.

Þetta er upphaf ferils. Næsta skref okkar er að móta skýra söfnunarstefnu. Það er vandamál margra safna að vera með ofvaxinn safnkost,“ sagði Zuhaitz en tækifærið hefur verið nýtt til að grisja safnkostinn og forgangsraða söfnun muna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.