Smit greint í sýnatöku á landamærum

Einn einstaklingur er í einangrun vegna Covid-19 smits á Austurlandi. Viðkomandi greindist við sýnatöku á landamærum. Ekki er talið að fleiri séu útsettir fyrir smiti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands. Þar segir frá því að smitrakning standi yfir en ekki er grunur um að sá sýkti hafi útsett fleiri fyrir smiti.

Samferðamaður viðkomandi er þegar kominn í sóttkví. Samkvæmt Covid.is eru nú þrír einstaklingar í sóttkví eystra.

Í tilkynningunni segir að þetta dæmi sýni hve mikilvægt sé að fólk gæti ávallt að sér í smitvörnum en taki þó því af æðruleysi þegar smit komi upp.

Aðgerðastjórn hefur í vikunni rætt við aðila í fjórðungnum sem eiga fulltrúa sem þurfa einhverra hluta vegna að fara út af svæðinu og koma inn á það að nýju. Rætt var við skólameistara framhaldsskóla, fræðslustjóra, íþrótta- og tómstundastjóra sveitarfélaga í fjórðungnum, fulltrúa Austurbrúar og fleiri.

Mat aðgerðastjórnarinnar er að miðað við þær upplýsingar sem fengust í þessum samtölum séu íbúar afar meðvitaðir um nauðsynlegar smitvarnir, hvort heldur heima við eða utan svæðis, og kappkosti að fylgja þeim í hvívetna.

Í ljósi þess að smit kom upp í fjórðungnum mun aðgerðastjórn fylgja fyrra verklagi og senda tilkynningar daglega meðan mál eru að skýrast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.