Smit hjá starfsmanni sjúkrahússins í Neskaupstað

Covid-19 smit var staðfest seint í gærkvöldi hjá starfsmanni Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað. Um sjötíu sýni voru tekin vegna smitsins í dag. Heimsóknir á sjúkrahúsið verða takmarkaðar fram a þriðjudag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi.

Þar segir að strax í morgun hafi, í samvinnu við rakningateymi, verið ráðist í að kortleggja hverjir höfðu verið í samskiptum við starfsmanninn.

Til að gæta fyllstu varúðar voru allir starfsmenn, sem verið hafa í vinnu síðustu daga, skimaðir klukkan 16:00 í dag. Tekin voru um sjötíu sýni sem send verða suður til Reykjavíkur til greiningar í fyrramálið. Niðurstöður berast því ekki fyrr en seint annað kvöld. Nánari upplýsingar verða sendar út þegar þær liggja fyrir.

Á meðan unnið er að því að skoða mögulega útbreiðslu smits innan sjúkrahússins hefur verið ákveðið í samráði við sóttvarnateymi HSA að takmarka heimsóknir á sjúkrahúsið og hjúkrunarheimilið fram á þriðjudag. Á meðan á því stendur verða heimsóknir aðeins í sérstökum tilfellum og þá metið í samráði við deildarstjóra.

Opið er í sýnatöku fyrir almenning á Egilsstöðum á morgun, sunnudag, frá 11:30 til 13:30. Hægt er að bóka hana á www.heilsuvera.is . Þeir sem annað hvort hafa einkenni eða kunna að hafa verið útsettir fyrir smiti eru hvattir til að nýta sér hana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.