Smit kom upp í áhöfn Norrænu
Ráðstafanir hafa verið gerðar vegna komu Norrænu til Seyðisfjarðar í fyrramálið eftir að tveir meðlimir úr áhöfn skipsins greindust með Covid-19 veiruna. Ekki er þó talið að líkur séu á að þeir hafi smitað farþega.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands. Þar kemur fram að smit hafi verið staðfest meðal starfsmannanna skömmu eftir að ferjan fór frá Hirtshals í Danmörku á laugardag.
Tvímenningarnir eru ekki með einkenni smits og ekki talin ástæða til að ætla að farþegar hafi smitast. Starfsmennirnir fóru strax í einangrun auk þess sem ellefu áhafnarmeðlimir fór í sóttkví. Fólkið fór allt frá borði við komu ferjunnar til Norrænu til Færeyja.
Að venju verða tekin sýni af öllum farþegum Norrænu við komuna til Seyðisfjarðar á morgun en þeir verða síðan í 5-6 daga sóttkví, eða þar til niðurstaða liggur fyrir úr seinni sýnatöku. Þetta er samkvæmt gildandi reglum og verklagi en sérstök aðgát verður þó viðhöfð í ljósi smitanna.
Allir áhafnarmeðlimir sem nú eru um borð í Norrænu voru skimaðir í Færeyjum. Enginn þeirra greindist með smit.
Enginn er með virkt smit á Austurlandi en fjórir einstaklingar eru í sóttkví. Á morgun taka gildi hertar reglur sem þýða að tveggja metra reglan gengur í gildi á ný fyrir landið allt. Þá skal nota grímu í verslunum, þar sem ekki er mögulegt að tryggja tveggja metra fjarlægð.
Reglurnar má lesa hér.