Stærsta ketamínsmygl Íslandssögunnar
Fjórir einstaklingar sæta gæsluvarðhaldi eftir tvö umfangsmikil fíkniefnasmygl með Norrænu til Seyðisfjarðar í síðasta mánuði. Í öðru tilfellinu var reynt að smygla 15 kílóum af ketamíni.
Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fer með rannsókn málanna. Þau voru unnin í samstarfi hennar við lögregluna á Austurlandi, Tollgæsluna, lögregluna á Norðurlandi eystra og sérsveit ríkislögreglustjóra.
Í fyrra atvikinu snemma í september fundust sjö kíló af kókaíni í bifreið sem kom með ferjunni. Einn var handtekinn á Seyðisfirði strax í kjölfarið og sætir sá enn gæsluvarðhaldi. Annar maður var síðar handtekinn á höfuðborgarsvæðinu. Honum var sleppt eftir húsleit og yfirheyrslu. Rannsókn málsins er sögð langt komin.
Hitt málið kom upp við komu ferjunnar þann 19. september. Þar fundust 15 kg af ketamíni og 5 kg í bíl. Það er langmesta magn ketamíns sem haldlagt hefur verið hérlendis. Þrír voru handteknir, ökumaðurinn og tveir aðrir. Þeir eru allir í gæsluvarðhaldi.
Allir hinir handteknu eru erlendir ríkisborgarar en hluti þeirra býr hér á landi.