Stærsta seglskip heims á Austfjörðum næsta vor
Golden Horizon stærsta seglskip heimsins mun eiga viðkomu á Austfjörðum næsta vor. Það mun leggjast við akkeri bæði á Seyðisfirði og Djúpavogi í maí.Viðkoma skipsins á Austfjörðum er lokapunktur hringferðar skipsins um Íslands sem hefst í Reykjavík þann 18. maí en lýkur á Djúpavogi þann 23. maí.
Golden Horizon er sem fyrr segir stærsta seglskip heimsins en því var hleypt af stokkunum fyrr í ár. Þetta er farþegaskip með pláss fyrir 272 farþega um borð. Skipið er fimm mastra, rúmlega 8.400 tonn að stærð og 162 metra langt. Skipið var smíðað í Króatíu nánar tiltekið af Brodosplit skipasmíðastöðinni í hafnarborginni Split.
Golden Horizon er eftirlíking af seglskipinu France II sem byggt var 1913. Hönnun þess byggir á þeim stóru seglskipum sem sigldu um heiminn með ýmsan varning á 19. öld og framan af 20. öldinni.
Það er ekki gefið að ferðast með því. Ódýrasta fargjaldið er nær 3.000 pund eða um hálf milljón króna á mann og er þá miðað við tvo í káetu.