Starf fiskeldisfræðings auglýst aftur án staðsetningar

Matvælastofnun hefur auglýst á ný starf sérfræðings í fiskeldi á Austurlandi en að þessi sinni án ákveðinnar starfsstöðvar. Deilur spruttu upp eftir að starfið var fyrst auglýst á Egilsstöðum.

Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi frá sér bókun þar sem gagnrýnt var að starfið væri auglýst á Egilsstöðum, þótt þar sé vissulega ekki fiskeldi. Bókunin varð tilefni greinaskrifa milli bæjarfulltrúa í Múlaþingi og Fjarðabyggð.

Af hálfu Matvælastofnunar var bent á að starfsstöð stofnunarinnar á Austurlandi væri á Egilsstöðum og var talið hentugra að starfsmaðurinn væri innan um fleiri, bæði til að samnýta þekkingu og skapa stuðning.

Starfið er auglýst aftur í dag, en að þessu sinni segir aðeins í auglýsingunni að viðkomandi verði með aðsetur á Austfjörðum. Hreppapólitíkin er þó ekki ástæða þess að auglýst er aftur heldur barst engin umsókn eftir fyrri auglýsinguna.

Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri stofnunarinnar, segir að það hafi einnig áhrif á að valkostirnir eru opnar hvað varðar staðsetninguna, hún verði fundin út í samstarfi við væntanlegan starfsmann. Aðeins sé á hreinu að hún verði á Austurlandi.

Auglýst er eftir háskólamenntuðum einstaklingi með fagþekkingu á fiskeldi í fullt starf. Honum er meðal annars ætlað að hafa eftirlit með búnaði og rekstri fiskeldisstöðva, geta út rekstrarleyfi og sinna eftirliti bæði í matvælafyrirtækjum og skipum. Umsóknarfrestur er til 6. desember en æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.