Stefna að frekari afléttingu þegar varnargarðar verða klárir

Vonast er til að hægt verði að aflétta rýmingu á svæðinu milli kvísla stóru skriðunnar sem féll á Seyðisfjörð í desember þegar búið verður að reisa bráðabirgðavarnir fyrir svæðið. Flýta á hættumati vegna húsa sem standa við Stöðvarlæk.

Frá því um áramót hefur verið unnið að hreinsun á Seyðisfirði eftir skriðuföllin þar í desember. Mest vinna hefur verið þar sem stóra skriðan féll 18. desember. Stórvirkar vinnuvélar eru þar á ferðinni við hreinsun og gerð varna.

Verið er að gera varnargarð við húsin sem standa næst Búðaránni og sluppu þegar gamall skriðuhryggur, sem kallast Múli, tvístraði skriðunni. Á þeirri torfu standa húsin við Hafnargötu 10, 11, 12, 14, 15, 16b og 18c.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Austurlandi segir að svæðið í kringum þessi hús teljist vinnusvæði og óviðkomandi sé þar bannaður aðgangur. Þar kemur fram að ákveðið hafi verið að aflétta ekki rýmingu húsanna á meðan verið sé að gera varnir þar.

„Allt sem varðar rýmingar er í stöðugri endurskoðun. Vinna við varnargarð er í fullum gangi og gengur vel. Þegar búið er að taka hann út og meta stöðugan til virkni mega íbúar eiga von á að rýmingu á þessu svæði verði aflétt,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn í samtali við Austurfrétt.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Múlaþing, ásamt fulltrúa ofanflóðasjóðs, hafi lagt til að hættumati verið flýtt á svæði utan við stóru skriðuna vegna húsa sem eru sitt hvoru megin við Stöðvarlæk. Óvissa ríkir um framtíð íbúabyggðar þar en sprunga gengur frá sári stóru skriðunnar út í lækinn.

Vegna alls þessa hefur verið ákveðið að að aflétta ekki hættustigi á Seyðisfirði meðan hreinsunarstarf er í fullum gangi, unnið að vörnum og beðið eftir frummatsskýrslunni.

Veðurstofan telur ekki yfirvofandi skriðuhættu meðan kalt er í veðri og þurrt. Seyðfirðingar mega hins vegar vænta þess næstu mánuði að rýmt verði í öryggisskyni ef veðurspá er óhagstæð, líkt og gert var um helgina. Unnin hafa verið drög að reitaskiptri rýmingaráætlun til þess að bregðast við slíkum aðstæðum. Í tilkynningunni segir að áætlunin verði unnin í samráði við íbúa Seyðisfjarðar og kynnt þegar hún verður tilbúin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.