Orkumálinn 2024

Steinar lagðir í götu skógræktar með skipulagsmálum?

Formaður Landssamtaka skógareigenda átelur ríki og sveitarfélög fyrir að reyna að leggja stein í götu skógræktar með kröfum um skipulag. Tími og peningar sem fari í slík mál hafi orðið til þess að áhugasamir aðilar hafi hætt við að fara í skógrækt.

„Það er ámælisvert að ríki og sveitarfélög hagi sér svona í stað þess að greiða veginn fyrir eins uppbyggilegri og ábatasamri atvinnugrein og skógrækt er,“ ritar formaðurinn, Jóhann Gísli Jóhannsson, bóndi á Breiðavaði í Eiðaþinghá í nýjasta hefti tímarits skógareigenda.

Í grein sinni fer Jóhann Gísli yfir að þolinmótt bjartsýnisfólk hafi síðustu 50 ár sýnt fram á að vel megi rækta skóg á Íslandi þar sem hann fái tækifæri til þess. Nú sé arðurinn að koma í ljós, byrjað sé að framleiða úr timbri en einnig séu fáar aðferðir betri til að binda kolefni og vinna þannig gegn loftslagsbreytingum heldur en skógrækt.

En þrátt fyrir þetta er ekki svo hlaupið að því að hefja skógrækt. „Fjárfesting í skógi er ekki eins auðsótt og mætti halda,“ skrifar Jóhann Gísli.

„Að undanförnu hafa landsvæði verið skipulega friðuð og vernduð víðsvegar um landið. Eins undarlega og það hljómar kemur þetta í veg fyrir að bændur og aðrir landeigendur geti með stolti stundað sjálfbæran landbúnað, sem skógrækt vissulega er.

Ófundnar fornleifar aftra skógrækt þar sem Minjastofnun krefur sveitarfélög um að rukka landeigendur fyrir að skrá fornleifar á landi sínu.

Endurheimt votlendir kemur í veg fyrir skógrækt og stórum svæðum og til eru dæmi um að árangri skógræktar sé bókstaflega drekkt.

Ætlast er til að landeigendur sæki um framkvæmdaleyfi til að fara í skógrækt. Á sama tíma draga mörg sveitarfélög þessa leyfisveitingu í lengstu lög. Auk þess þurfa landeigendur að greiða háar fjárhæðir og hætta við framkvæmdir,“ segir í pistlinum.

Jóhann Gísli bendir þó á að þetta sé allt hægt að laga og þá geti Íslendingar tekið frumkvæði í loftslagsmálum. „Nú er stór áskorun í loftslagsmálum, sem felur í sér uppbyggingu á skógarauðlind fyrir þjóðina með öllum þeim kostum og gildum sem hún hefur upp á að bjóða. Það eru flestir búnir að átta sig á hvað skógrækt getur gert margt gott fyrir land og þjóð. Það er því ekki eftir neinu að bíða.“

Við grisjun í Guttormslundi í Hallormsstaðarskógi. Mynd: Þröstur Eysteinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.