Stemming á Breiðdalsvík á myrkum dögum í októberlok
Breiðdælingar bjóða öllum Austfirðingum í heimsókn á Menningardegi á morgun. Skipulögð dagskrá er í þorpinu frá morgni til kvölds. Fundir um starf landvarða, ljóðakvöld, kótelettukvöld og óhefðbundin messa eru meðal þess sem eru í boði um helgina.„Þetta er orðinn fastur sess hjá okkur. Viðburður sem þessi gerir mikið fyrir byggðina með að færa okkur líf og stemmingu á þessum myrku dögum í október,“ segir Elva Bára Indriðadóttir sem farið hefur fyrir undirbúningi.
Dagurinn hefst á zúmba um morguninn og síðan rekur hver atburðurinn annan, svo sem hátíðardagskrá með kaffihlaðboði og skottsölu í skólanum, írskri stemmingu og uppboði á Beljanda og loks stórtónleikum með Eyjólfi Kristjáns, Ingólfi Þórarinssyni og Heru Björk í frystihúsinu um kvöldið. Slegið verður upp balli að þeim loknum.
„Við viljum að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og við bjóðum öllum að koma og eiga með okkur góðan dag,“ segir Elva Bára.
Æskulýðsmót á Egilsstöðum
Ýmislegt fleira verður í boði í fjórðungnum um helgina. Á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal verður árlegt kótelettukvöld og ball á eftir með Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar.
Í kvöld verður einnig Ljóðakvöld á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi í Seldal á Norðfirði.
Í fyrstu deild karla í körfuknattleik heimsækir Höttur Þór Akureyri í leik sem hefst klukkan 19:15 í kvöld. Von er á hörkuleik en liðin féllu bæði úr úrvalsdeildinni í vor.
Egilsstaðir eru vettvangur landsmóts Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar um helgina. Von er á hópi ungmenna í bæinn seinni partinn sem setja munu mark sitt á hann um helgina. Dagskránni lýkur með óhefðbundinni messu í Egilsstaðakirkju klukkan 10:30 á sunnudag sem séra Hjalti Jón Sverrisson leiðir.
Kynna landvörslu á Víknaslóðum
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs heldur opna fundi um starf landvarðar á Víknaslóðum á Egilsstöðum og Borgarfirði á morgun. Einsdæmi er að félagasamtök ráði til sín landvörð en það gerði félagið fyrir svæðið í sumar.
Um leið var lagt upp með að gera heildstæða úttekt á ástandi svæðisins og móta fyrir það framtíðarsýn auk þess að gera lista yfir þau verkefni sem nauðsynlegt sé að ráðast þar í. Fyrri fundurinn verður á Egilsstöðum í sal Ferðafélagsins klukkan 13:00 og sá seinni í Blábjörgum á Borgarfirði klukkan 16:00.