Stöndum vörð um verðmæti fasteigna með viðhaldi!
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íbúðaláðasjóður standa fyrir námskeiði á Hótel Héraði á miðvikudag til að vekja fólk til umhugsunar um viðhald fasteigna.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samstarfi við Íbúðalánasjóð hefur á síðustu vikum verið á ferð um landið með námskeiðið „Viðhald og verðmæti“. Námskeiðið er liður í því að vekja fólk til umhugsunar um það verðmæti sem falið er í fasteignum og nauðsyn þess að huga að viðhaldi áður en ástandið verður of slæmt og kostnaðarsamt. Reglubundið og fyrirbyggjandi viðhald og endurnýjun tryggir áframhaldandi verðmæti fasteigna.
Námskeiðið „Viðhald og verðmæti“ hefur verið haldið hvorutveggja á Akureyri og Ísafirði með mjög góðum árangri og hafa í kringum 200 einstaklingar þegar sótt námskeiðið. Námskeiðið er sérsniðið að þörfum hins almenna húseiganda en tekin eru fyrir byggingarmál, lagnamál, orkusparnaður og lífsgæði.
Námskeiðið verður haldið á Hótel Héraði, Egilstöðum, miðvikudaginn 3. nóvember frá klukkan 15:00 – 18:30. Markmið með námskeiðinu er hvorutveggja að veita fræðslu og ráðgjöf en einnig að búa til vettvang til tengsla milli húseiganda og fyrirtækja á svæðinu sem veitt geta sérhæfða aðstoð og ráðgjöf.
Þátttakendum er því boðið á sérstakt tengslatorg á meðan á námskeiði stendur þar sem fjölmargir iðnmeistarar, verkfræðistofur, bankar og þjónustuaðilar í byggingariðnaði veita upplýsingar og ráðgjöf um allt sem lýtur að viðhaldi, endurbótum á húsnæði og að auknum lífsgæðum á heimilum og vinnustað. Slík tenging og greitt aðgengi að upplýsingum er líkleg til að hvetja fólk til framkvæmda.
Hátt í 25 fyrirtæki að norðan og vestan tóku þátt í tengslatorginu á Akureyri og Ísafirði og mátti þar finna sérfræðinga í raflögnum, pípulögnum og myglusvepp svo fátt eitt sé nefnt. Gert er ráð fyrir að mæting hvorutveggja fyrirtækja og almennra húseigenda á suðaustur og austurlandi verði mjög góð.
Aðgangur er ókeypis og fer skráning fram inn á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands: www.nmi.is. Þar er einnig að finna dagskrá fyrir námskeið og allar frekari upplýsingar.