Stofna ADHD samtök á Austurlandi

Fyrir dyrum stendur að stofna ADHD samtök á Austurandi. Verður stofnfundur þessara samtaka haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum fimmtudagskvöldið n.k. og hefst hann kl. 20.00.

María Hjálmarsdóttir er í forsvari þess hóps sem ætlar að stofna þessi nýju samtök.

„Okkar markmið er fyrst og fremst að færa hagsmuna- og baráttumál okkar heim í hérað þannig að fólk sem býr hér á Austurlandi geti sótt sér stuðning og fræðslu í heimabyggð,“ segir María.

Fram kemur í máli hennar að búið sé að stofna Facebook síðuna ADHD Austurland og þar sé til staðar lokaður hópur þar sem fólk sem glímir við ADHD getur rætt sín mál og skiptst á skoðunum og upplýsingum.

„Þetta var reynt hérna fyrir um áratug síðan en þá komu aldrei fleiri en tveir til þrír á fundi,“ segir María. „Nú eru fleiri sem vilja taka þátt í starfinu.“

Fram kemur í máli Maríu að svipuð samtök séu til í Vestmannaeyjum og hafi gengið mjög vel frá því þau voru stofnuð.

„Við munum starfa undir hatti landssamtaka ADHD á Íslandi sem eru staðsett í Reykjavík,“ segir María. „Þau munu veita okkur stuðning og miðla til okkar fræðsluefni og fleiru sem tengist ADHD.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.