Orkumálinn 2024

„Stofnun Isavia ákveðið óheillaspor fyrir íslenska flugvelli“

Nær allir fulltrúar stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram til Alþingis í Norðausturkjördæmi vilja fara í uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Það kom fram á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans sem fram fór í Valaskjálf í síðustu viku þegar spurt var út í flugsamgöngur í kjördæminu.


Áherslur fulltrúa flokkanna á hvers vegna væri nauðsynlegt að hefja uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli voru ekki allar á sama veg. Sem dæmi má nefna að oddviti Sjálfstæðisflokksins vildi leggja áherslu á Egilsstaðaflugvöllur yrði öflugur til útflutnings á laxi og ferskum fiski en fulltrúi Samfylkingarinnar lagði áherslu á Egilsstaðaflugvöll sem gátt inn í landið fyrir erlenda ferðamenn svo dreifa mætti ferðaþjónustunni betur. Sumir frambjóðendur gagnrýndu hvernig staðið hafi verið að málum síðustu ár varðandi aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll og lét oddviti Pírata eftirfarandi orð falla: „Ég vil taka svo djúpt í árina að stofnun Isavia ákveðið óheillaspor fyrir íslenska flugvelli.“


Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands var sá eini sem ekki tók afstöðu í málinu. En svör frambjóðenda voru eftirfarandi:


Sjálfstæðisflokkur - Njáll Trausti Friðbertsson (Oddviti): Þá er talað og skrifað mikið um þessa fjóra alþjóðaflugvelli á Íslandi [...] Þeir gegna allir miklu hlutverki. Við þurfum á þeim öllum að halda. Við erum bara að byggja upp og nýta stærstu flugvelli landsins fyrir varaflugvelli, þar sem er áætlunarflug þá þarf að kosta minna til. Við eigum að halda áfram að byggja þetta upp. Ég hef líka skrifað um uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, langar greinar. Ég lagði áherslu á í kjördæmaviku árið 2018 að það yrði unnin skýrsla fyrir Egilsstaðaflugvöll og landshlutasamtökin hér myndu leiða þá vinnu og leggja fram helstu punkta varðandi kostnaðaráætlun [...] Ég lagði mikla áherslu á hlöðin á þessu svæði útaf möguleikum í laxeldi og ferskum fiski, að flytja út, það eigi að leggja áherslu á það hér. Menn geta svo flett upp á netinu þessar áherslur sem eru í sex til sjö atriðum sem snúa að Egilsstaðaflugvelli.


Sósíalistaflokkur Íslands - Haraldur Ingi Haraldsson (Oddviti): Mér dettur ekki í hug að ætla skrökva að ykkur að ég hafi einhverja djúpa þekkingu á þessum málum. Ég er nýr í framboði og ég er fyrir nýjan flokk. Almennt séð þarf að samhæfa samgöngur hvort sem það er flug, ferjur eða vegir svo þeir virki saman.


Samfylkingin - Hilda Jana Gísladóttir (2. sæti): Ég hef talað mikið fyrir því að bæði verði uppbygging á Egilsstöðum og Akureyri. Bæði vegna þess að það er skynsamlegt ef við viljum raunverulega dreifa ferðamönnum um land allt og byggja þá upp áfangastaði sem verða ekkert endilega á Akureyri eða Egilsstöðum því það eru gáttirnar inn í landið og við þurfum fleiri gáttir inn í landið. Mér finnst þetta ekki vera raunveruleg ákvörðun þegar við horfum mögulega fram á 150 milljarða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og 600 milljónir í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.


Viðreisn - Eiríkur Björn Björgvinsson (Oddviti): Ég er einn af þeim fáu hérna við borðið sem hef komið að uppbyggingu á báðum þessum flugvöllum [innsk. Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli]. Þegar ég var bæjarstjóri [á Fljótsdalshéraði] fórum við í stækkunina á Egilsstöðum og svo undirbúningnum á stækkun á flugstöðinni á Akureyri. Þegar maður sótti í rauninni stuðning ríkisins til þessarar uppbyggingar þá var [...] þetta endalaus barningur. Það var aldrei skilningur fyrir því hvað þyrfti að gera hérna á þessu svæði. Við vorum í gríðarlegri uppbyggingu hérna í kringum Kárahnjúkavirkjunina. Það var ekki fyrr en undir lok framkvæmdanna sem við fengum loksins stækkunina á flugstöðinni. Þetta var skilningur ríkisvaldsins sem þurfti að gera hér í uppbyggingu innviða. Þannig málið snýst um það, með báða þessa velli, þarf að efla og styrkja. Það þarf líka að efla samstarfið milli þessara valla og milli þessara svæða. Það er alveg nauðsynlegt að hafa báða þessar gáttir inn í landið. Það sem mér finnst skorta er að það sé fjármagn til þess að markaðssetja þessa velli. Það hefur alltof lítið fjármagn runnið út á landsbyggðina.


Vinstri græn - Jódís Skúladóttir (2. sæti): Þá er mikilvægt að horfa á þessa tvo flugvelli út frá ólíkum aðstæðum. Sjúkrahúsið á Akureyri er auðvitað svolítill punktur í öllu kjördæminu, það er stórt sjúkrahús, það er varasjúkrahús Landspítala. Ég sé bæði út frá ferðaþjónustu, atvinnuuppbyggingu en ekki síst út frá sjúkrahúsinu þá verði að tryggja innviði þar. Hér erum við að horfa á dálítið aðra þætti. Hér er nauðsynlegt að fara í uppbyggingu, ég fékk mjög góða kynningu hjá Isavia af framtíðaráformum þar, og við erum að horfa til útflutnings úr fjórðungnum eins og á laxi og öðrum vörum. Þannig það er virkilega mikilvægt að standa vörð um þessa vinnu og halda áfram á sömu braut.


Miðflokkurinn - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Oddviti): Já, við höfum orðið fyrir vonbrigðum með báða þessa flugvelli á kjörtímabilinu. Stór fyrirheit hafa verið gefin ekki síst fyrir Egilsstaðaflugvöll sem ekki hafa gengið eftir nema þær breyttust í einhvers konar neyðarráðstafanir til að fara í lagfæringar sem voru löngu tímabærar í stað þess að byggja upp og bæta við. Þetta mun ekkert gerast þó svo að menn séu að lofa þess aftur fyrir þessar kosningar nema því sé fylgt eftir gagnvart kerfinu sem er ekkert, samkvæmt reynslu minni, hrifið af þessari nálgun sem við væntanlega öll hér getum verið sammála um að sé mjög mikilvæg, með fleiri gáttir inn í landið. Það mun þurfa að fylgja því í gegn. Þegar við stofnuðum þróunarsjóðinn á sínum tíma þá var það mjög mikilvægur liður í þessu en líka finnst mér menn ekki hafa fylgt málinu nógu vel eftir, því það þarf að fylgja því eftir og það þarf beinlínis að veita, til að byrja með, stuðning þannig menn sjái sér fært að fljúga t.d. beint á Egilsstaði. Í upphafi þarf beinan stuðning, við gerum nú annað eins fyrir aðra erlenda fjárfestingu.


Píratar - Einar Brynjólfsson (Oddviti): Ég vil taka svo djúpt í árina að stofnun Isavia ákveðið óheillaspor fyrir íslenska flugvelli og flugsamgöngur innanlands og til útlanda. Það er innbyggður galli, Isavia má í raun ekki byggja upp aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll samkvæmt lögum sem gilda nema þá eftir einhverjum rekstrarsamningum og þjónustusamningum en öll uppbygging kemur annars staðar frá. Þarna lentu allir hinir flugvellirnir milli skips og bryggju og það gildir um þá alla. Hvað Egilsstaðaflugvöll varðar hafa verið nefndir hér ansi margir milljarðar sem hafa einmitt lent á Keflavíkurflugvelli og verið notaðir að í að byggja upp þar meðan lítið sem ekkert hefur hrotið niður af borðum, þessu nægtaborði, til flugvallanna hér. Það er náttúrlega alveg óþolandi. Að auka millilandaflug og gera það að alvöru gátt hér á Egilsstöðum er líka ákveðið umhverfisverndarmál vegna þess að með því gætum við kannski , dregið úr jafnvel álagi á þá ferðamannastaði sem fyrst verða fyrir valinu og eru næst aðalgáttinni inn í landið.


Framsóknarflokkurinn - Líneik Anna Sævarsdóttir (2. sæti): Ég tek undir að varaflugvellirnir, alþjóðaflugvellirnir, allir eru mikilvægir; Akureyri, Egilsstaðir og Reykjavík þurfa allir að vera varaflugvellir og fullbúnir og ég held að það sé styrkur að ef við getum sótt fram fyrir þessa flugvelli saman. Ég vil minna á og bæta við það sem fram er komið að við samþykkt samgönguáætlunar á þessu kjörtímabili þá var það ákveðið að alþjóðaflugið átti að taka þátt í kostnaði varaflugvallanna síðan í sama mánuði lagðist allt flug af vegna Covid. Ég mun beita mér fyrir því að þessu verði fylgt eftir.


Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn - Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson (Oddviti): Ef það á að byggja hér upp alvöru ferðaþjónustu þá verða báðir flugvellirnir að vera alþjóðaflugvellir með öllum græjum ekki bara varaflugvellir, þannig þetta er mjög mikilvægt mál fyrir þetta hérað eða kjördæmi.


Flokkur fólksins - Jakob Frímann Magnússon (Oddviti): Það að reka flugvöll, alþjóðaflugvöll, hvort sem það er hér eða annars staðar er bara góður bissness. Það á enginn að standa í vegi fyrir því að það verði til góður bissness á rekstri á alþjóðlegum flugvelli á Egilsstöðum allt sem þarf er otun eða potun [...] Ég segi fyrir mína parta að ég er tilbúinn fyrir slíka otun fyrir Egilsstaði því það er góður bissness, framtíðar-búgreinin ferðaþjónustan mun njóta góðs af því, laxeldið líka og við eigum bara að hefja þá vegferð strax.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.