Stórútkall á Fagradal eftir að hátt í tugur bíla festist í óveðri
Stórútkall var eftir að hátt í tugur bíla festist eða valt á Fagradal fyrir hádegið í dag. Björgunarsveitir, lögregla og sjúkraliðar voru sendir á svæðið. Aðgerðarstjórn almannavarna á Eskifirði var virkjuð í framhaldi af útkallinu.
Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að skyndilega hafi gert snarvitlaust veður á Fagradal þar sem saman fóru mikil ísing, stormur og nær ekkert skyggni. Bílarnir hafi snarsnúist í hálkunni.
Nokkru eftir hádegið var búið að ná öllu fólkinu úr bílunum og fara með það til byggða. Það voru björgunarsveitirnar Ársól á Reyðarfirði og Hérað á Egilsstöðum sem tóku þátt í útkallinu.
Davíð Már segir að engin alvarleg slys hafi orðið á fólki en einhverjir hlutu minniháttar meiðsl eða skrámur. Einn bíll valt en sá sem var í honum slapp með skrámur. Þá fauk rúta út af veginum en engir farþegar voru í henni.
Einnig voru björgunarsveitarmenn sendir upp á Öxi þar sem ökumaður var í vandræðum. Bæði Fagridalur og Öxi eru lokuð.
Davíð Már segir að ástæða sé til að brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni þegar búið er að vara við slíku.