Strandveiðimenn á Austurlandi ekki sáttir við sumarið

Guðlaugur Birgisson á Djúpavogi formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi segir að strandveiðimenn í fjórðungnum séu ekki sáttir við sumarið.

„Það var horfið frá því að hafa landið svæðisskipt eins og var og það þýddi að megnið af því sem var til skiptanna var veitt í öðrum landshlutum aðallega fyrir vestan,“ segir Guðlaugur í samtali við Austurfrétt. „Til að bæta gráu ofan á svart voru svo teknir af okkur dagar í ágústmánuði þegar besta veiðin er hjá okkur.“

Guðlaugur segir að það hafi verið slæmt að ná ekki að klára veiðitímabilið. „Okkur var lofað 12 dögum í ágúst en þeir voru síðan teknir af okkur um miðjan mánuðinn,“ segir hann.

Guðlaugur bætir því við að það sé bót í máli að ætlunin sé að hafa veiðarnar aftur svæðisskiptar á næsta ári.

„Persónulega finnst mér að þessir 48 daga sem eru ætlaðir til strandveiða séu ekki bundnir við sumarið heldur gildi allt árið og nái til allra daga. Það myndi auðvelda sóknina,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar