Súrálsskipið farið

Súrálsskipið Taurus Confidence, sem kom til Mjóeyrarhöfn 20. mars síðastliðinn með 10 skipverja með Covid-19 smit, lét úr höfn á ný klukkan 14 í dag.

Allir áhafnarmeðlimirnir 19 eru útskrifaðir úr einangrun og sóttkví. Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands segir að þeir hafi allir verið um borð við brottför og við góða heilsu.

Í tilkynningunni er farið yfir helstu ráðstafanir sem gripið var til þannig hindra mætti að smit bærist úr skipinu og öllum sem að verkinu komu þakkað fyrir framlag þeirra.

Skipverjar sjálfir eru sagðir hafa sinnt smitvörnum óaðfinnanlega um borð, umboðsaðili skipsins ávallt tilbúinn að liðsinna og útvega bjargir, hafnarstarfsfólk og björgunarsveitarfólk í Fjarðabyggð hafi sinnt gæslu og hafnsögumenn gert sitt við komu og brottför skipsins.

Þá eru taldir upp sjúkraflutningamenn og annað heilbrigðisstarfsfólk sem hafi skipulagt og séð um flutning þess skipverja sem senda þurfti á Landsspítalann. Skipið var svo að endingu sótthreinsað áður en það fór.

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um komur fólks erlendis frá tók gildi í gær en breytingar í henni snúast um sóttvarnarhús, sóttkví og einangrun við komuna til landsins. Á Austurlandi hefur hún mest áhrif á komur Norrænu til Seyðisfjarðar.

Hún kom á miðvikudag með 38 farþega. Þeir voru allir skimaðir og reyndust sýni þeirra neikvæð en þurfa í fimm daga sóttkví og aðra skimun.

Níu farþegar komu frá rauðum svæðum, fjórir þáðu gistingu í sóttvarnarhúsi á Hótel Hallormsstað en fimm voru með gistingu á eigin vegum.

Við komuna til landsins fá farþegar skriflegar og munnlegar leiðbeiningar um hvernig haga skuli sóttkví. Í tilkynningunni segir að smávægileg vandamál hafi engu að síður komið upp í gegnum tíðina en þau verið leyst jafnóðum. Viðurlögum hafi aðeins verið beitt í undantekningartilfellum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.