Sveitarfélög og útgerðir hafa áhyggjur ef engin loðna finnst: Leitað í vikunni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. des 2024 14:32 • Uppfært 09. des 2024 14:36
Stefnt er á að uppsjávarveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson fari til loðnuleitar á morgun. Ekki fannst nóg í haust til að gefa út byrjunarkvóta. Bæði austfirsk sveitarfélög og útgerðir lýsa áhyggjum af því að loðnubrestur verði annað árið í röð.
„Það fannst ekki nóg til að gefa út kvóta í haust en það var á mörkunum þannig við teljum að enn sé von,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Uppsjávarútgerðir og stofnunin vinna saman að loðnuleitinni. Útgerðirnar munu kosta leiðangur Aðalsteins en um borð verða tveir vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sem vinna sýni og reikna út niðurstöður.
Stefnt er á að skipið fari af stað frá Eskifirði á morgun og verði úti í tæpa viku. Allar tímasetningar velta þó á veðri. Stefnt er á að skipið fari um landgrunnskantinn norður af Langanesi og síðan vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.
„Markmiðið er að kortleggja dreifingu og magn loðnunnar til að kanna hvort eitthvað af ráði sé komið austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Þær upplýsingar nýtast til að skipuleggja betur loðnuleitarleiðangur í janúar, meðal annars hvenær farið sé af stað í hann,“ segir Guðmundur.
Loðnubrestur annað árið í röð yrði þungt högg
Bæði sveitarfélög og útgerðir á Austurlandi hafa að undanförnu lýst yfir áhyggjur af afleiðingum loðnubrests. Í bókun frá Vopnafjarðarhreppi segir að það hafi mikil áhrif á íbúa, fyrirtæki og sveitarfélög þar sem uppsjávarvinnsla sé ein af meginstoðum atvinnulífsins.
Í bókuninni er vísað til ályktunar frá Samtökum sjávarútvegsfélaga þar sem áhersla er lögð á að Hafrannsóknastofnun hafi fjármagn til að leita að loðnu í janúar „Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í bókun Vopnfirðinga.
Í ávarpi með síðasta ársfjórðungsuppgjöri Síldarvinnslunnar sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri, að upphafsráðgjöfin væri vonbrigði og annað árið í röð án loðnu yrði þungt högg, einkum gagnvart mörkuðum. Hann vísar til þess að loðnan sé mikilvæg íslensku samfélagi, vertíð geti aukið hagvöxtinn um 0,5-1%. Því sé mikilvægt að fólk leggi sig fram við rannsóknir í vetur.
Í yfirliti sínu með ársfjórðungsuppgjöri Brims segir Guðmundur Kristjánsson að farið sé að harðna á dalnum í íslenskum sjávarútvegi án loðnunnar. Fleira komi til, eins og samdráttur í kvóta á verðmætum bolfisktegundum og að aðeins hafi tekist að veiða 65% af úthlutuðum makrílkvóta. Guðmundur vonast til að heimilt verði að færa þann kvóta sem ekki veiddist yfir á næsta ár.
Ala loðnu til að kanna áhrif mismunandi umhverfisþátta á afkomu hennar
Á sama tíma hefur vísindafólki á tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík í fyrsta sinn tekist að rækta loðnu frá klaki til fullorðinsaldurs. Hrogn voru frjóvguð um borð í skipi Brims, Víkingi AK og flutt í stöðina. Lirfurnar klöktust þar út á 30 dögum. Þar býr loðnan við stöðug hitastig, 7°C þannig hún vex hraðar en í náttúrunni. Hún varð kynþroska á fyrsta ári og náði hámarkslengd strax á öðru ári. Frekari rannsóknir eru hafnar.
Aðspurður um þessar rannsóknir segir Guðmundur að stefnan sé ekki sett á stórfellt eldi á loðnu til að koma á móti óstöðugleika í náttúrunni. Frekar sé horft til þess að hægt sé að fylgjast með lífi loðnunnar í lokuðum kerfum og þar með kanna hvernig breytingar á ákveðnum umhverfisþáttum hafa áhrif á hana.
„Það er búið að vera spennandi að fylgjast með þessum tilraunum. Við vitum að hafið er að súrna og eitt af því sem við getum gert er að rækta loðnuna við mismunandi sýrustig og meta þannig áhrifin,“ segir Guðmundur.