Sviðssetja leit að flugvél í fljótinu

Íbúar á Fljótsdalshéraði eiga hvorki að láta sér bregða við að sjá ljós á Lagarfljóti í kvöld né reyk stíga upp frá flugvellinum á Egilsstöðum á laugardag. Hvort tveggja mun eiga uppruna sinn í flugslysaæfingu sem haldin verður um helgina.

Í æfingunni um helgina verður bæði um að ræða fyrirlestra fyrir viðbragðsaðila og verklegar æfingar. Æfingin hefst í kvöld með fyrirlestrum áður en farið verður út á Lagarfljót á ellefta tímanum.

„Það er vél að koma inn til lendingar þegar hættir að heyrast í henni þannig að það þarf að finna hana,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri.

Flugvélin lendir í Leginum þannig að búast má við ljósum á fljótinu þegar björgunarsveitir leita að vélinni.

Um er að ræða reglubundna æfingu þar sem æfð er flugslysaáætlun fyrir Egilsstaðaflugvöll en slíkt er gert á þriggja til fjögurra ára fresti. Að æfingunni standa ISAVIA og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og er æfingin ætluð starfsfólki flugvalla, björgunarsveitum, sjálfboðaliðum Rauða krossins, lögreglu, slökkviliði, heilbrigðisstarfsfólki og fleirum.

„Æfing sem þessi eflir hópslysaviðbrögð svæðisins. Þótt verið sé að æfa viðbrögð við flugslysi er þetta ekkert annað en hópslys. Vettvangurinn gæti bara verið annar,“ segir Elva.

Æfingunni verður framhaldið á morgun með skrifborðsæfingu aðgerðastjórnar og fyrirlestrum annað kvöld áður en hin eiginlega æfing verður á laugardag. Um klukkan ellefu að morgni verður brugðist við eins og flugslys hafi orðið við enda flugbrautarinnar.

Að óbreyttu tekur þyrla Landhelgisgæslunnar þátt í þeirri aðgerð og flytur með sér greiningardeild frá Landsspítalanum. Í henni tekur þátt fjöldi íbúa af svæðinu sem leika slasaða. Í tengslum við æfinguna má búast við að almenningur verði var við aukna umferð björgunarsveita á Egilsstöðum auk þess sem kveiktur verður eldur á flugvellinum sem reyk leggur frá.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.