„Svikin loforð eru fylgifiskur sameininga“
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahrepp, segir stór loforð ríkis við sameiningu sveitarfélaga hafa oftar en einu sinni verið svikin undanfarna áratugi. Hann lýsir því að sveitarfélög eigi ítrekað í átökum við ríkið þótt heita eigi að þau vinni hlið við hlið.
Þröstur var einn af frummælendum íbúafundar sem haldinn var í Fljótsdal í síðustu viku. Tilefni fundarins voru tillögur innviðaráðherra um að Alþingi veiti honum vald til að sameina sveitarfélög með færri en 250 íbúa við önnur með lögum.
Stærra sveitarfélagið í sameiningunni hefði heldur ekkert um ákvörðunina að segja. Lögfræðingur Fljótsdalshrepps segir að með þessu sé og fleiri ákvæðum í drögum að nýjum sveitarstjórnarlögum séu völdin tekin af íbúum beggja sveitarfélaga. Til þessa hafa sameiningar verið ákveðnar með íbúakosningum.
Slitlag, Sundabraut og Fjarðarheiðargöng
Þröstur sagði að íslenska ríkið hefði undanfarin 30 ár þrýst á sameiningar sveitarfélaga og oft lofað stuðningi í staðinn, einkum samgöngubótum, en oft svikið það. Þröstur, sem um tíma var útibússtjóri Landsbankans á Kópaskeri, rifjaði upp að árið 1991 hefðu Presthólahreppur og Öxarfjarðarhreppur sameinast með loforði um vegabætur. „Það var ekki einn metri af slitlagi lagður í hreppnum næstu tíu árin meðan það var gert í öllum öðrum hreppum á Norðausturlandi.“
Árið 1997 sameinaðist Kjalarnes Reykjavíkurborg. „Forsenda þess var Sundabraut. Við vitum öll hvar hún er.“ Eins virtist byr með Fjarðarheiðargöngum og Öxi vera forsenda þess að Múlaþing varð til fyrir fimm árum. Íbúar sveitarfélagsins bíða nú milli vonar og ótta eftir nýrri samgönguáætlun Eyjólfs sem á að koma fyrir Alþingi í nóvember, en hann hefur gefið í skyn að göngunum verði frestað.
Þröstur sagði vanefndir á loforðum við sameiningar „stjórnmálunum til skammar.“ Hann hnýtti sérstaklega í Sigurð Inga Jóhannsson, sem var ráðherra sveitarstjórna- og samgöngumála þegar Múlaþing varð til, með orðsendingu um að fyrri ráðherrar málaflokkanna hefðu getað afsakað sig með að hafa ekki fjárveitingavaldið. Sigurði Inga hefði hins vegar ekkert betur gengið þótt hann hefði síðar fært sig í fjármálaráðuneytið.
Ekki heldur hentugt að sveitarfélög verði landfræðilega of stór
Í tíð Sigurðar Inga kom líka fram tillaga um þvinganir til sameininga með markmiði um að sveitarfélög yrðu að lágmarki 1.000 manns. Sú tillaga var hluti af fleiri tillögum um breytingar á sveitarstjórnarstiginu, líkt og nú. Þröstur sagði fjöldann hafa verið órökstuddan og tillöguna haft það í för með sér að allt snérist um hana meðan annað beið. „Trúlega væri 20-30 þúsund manns hentug stærð á sveitarfélagið. En slíkar einingar næðu yfir hálft landið og það er heldur ekki hagkvæmt.“
Sigurður Ingi bakkaði með hugmyndirnar gegn málamiðlunum. Þröstur sagði að nú væri sú sátt rofin. „Við héldum við værum komin fyrir vind og fengjum frið í einhvern tíma en þá birtist bara nýr ráðherra.“
Pólitíkin gefur sér að íbúar hafi ekkert vit á þjónustunni
Eyjólfur hefur haldið því fram að lítil sveitarfélög geti ekki veitt íbúum sínum þá þjónustu sem þeir þurfi. Þröstur gagnrýndi þetta viðhorf. „Pólitíkin gefur sér að íbúar hafi ekki vit á málinu. Það hefur enginn betur vit á því hvort þjónustan sé ásættanleg en íbúarnir. Þetta er óvirðing sem er til skammar. Vanþekking ráðuneytis og ráðherra á málefnum landsbyggðar er sláandi.
Að mínu mati þurfa sveitarfélög að uppfylla tvennt. Annars vegar að vera staðbundnar einingar, hins vegar að standa undir þeim verkefnum sem þeim er falið með lögum. Mörg lítil sveitarfélög hafa verið vel rekin og eru með góðar tekjur meðan stærri sveitarfélög hafa verið í tómu tjóni fjárhagslega.
Við erum eiginlega með þrenns konar sveitarfélög. Í fyrsta lagi erum við með höfuðborgarsvæðið, sem nær eiginlega frá Selfossi. Síðan eru landmikil og fjölkjarna sveitarfélög. Í þriðja lagi eru lítil, fjárhagslega og félagslega sterk sveitarfélög sem geta vel spjarað sig. Af hverju mega þau það ekki?“
Litlar sameiningar spara ekkert
Minni sveitarfélög hafa leyst sína þjónustu með þjónustusamningum og byggðasamlögum, líkt og reyndar þau stærri. Þröstur sagði að samstarfsverkefni færu í farvegi sem hentuðu öllum. Til dæmis leggi sveitarfélög í Eyjafirði myndarlega til slökkviliðsins á Akureyri. Tillögur um útreikninga á raunkostnaði við slíka samninga gætu því reynst flóknir.
Eyjólfur hefur líka stutt sameiningarhugmyndir með því að segja að spara megi myndarlega á sveitarstjórnarstiginu. „Það er galin hugmynd að það sparist stór upphæð á að leggja þessi sjö litlu sveitarfélög niður. Það skiptir engu máli. Það sjá allir að báknið er ekki í Tjörneshreppi eða Árneshreppi.“
Þröstur sagði að heilt yfir hefðu sameiningar reynst vel þótt stundum hefði komið upp núningur eftir á. Allt bendi til þess að þeim fækki áfram, en lykilatriðið sé að íbúar taki sjálfir ákvarðanirnar. Hann sagði að ráðherra gæti átt erfitt uppdráttar með frumvarpið í þinginu því sveitarfélögin séu að þessu sinni sameinuð í andstöðu sinni.
Ríkið losar sig við byggðavandamál með sameiningum
Hann ítrekaði þó að umræða um sameiningar yrði að vera heiðarleg og hreinskilin. Sameiningin í Öxarfirði fyrir 30 árum hefði meðal annars verið tilkomin vegna vandamála í atvinnumálum. Það færi vondur forboði. „Sameiningar breyta ekki forsendum samfélagsins. Þeim fylgir ekki fullt af fjármunum eða fyrirtækjum. Hins vegar þegar Grímsey og Hrísey sameinuðust Akureyri eða Raufarhöfn við Húsavík færðist vandamálið frá ríkinu. Nýja sveitarfélagið fékk þar með líka byggðavandamál í fangið. Þetta eru vandamál sem sameiningar geta ekki leyst.“
Í Grýtubakkahreppi búa um 400 manns. Þröstur var harðorður um samskipti þess við ríkið. „Allar ógnir sem steðja að þessu 400 manna sveitarfélagi eru frá ríkinu. Það er til dæmis slagur um að ríkið borgi daggjöld af hjúkrunarheimilinu, eins og því ber með lögum. Þetta eru einingar sem eiga að vinna hlið við hlið.“
Sameiginleg ábyrgð mikils virði
Urður Gunnarsdóttir var fundarstjóri og byrjaði á hugvekju sem gárungar í sal vildu uppnefna „hrollvekju.“ Urður er með áratugareynslu úr utanríkisþjónustunni, meðal annars frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) þar sem hún sinnti meðal annars kosningaeftirliti. Hún hefur búið í Fljótsdal í fimm ár og sagði samfélagið taka vel á móti nýjum íbúum og finna þeim hlutverk. Íbúar hefðu staðið vörð um gildi eins og samheldni, samfélagsvitund og öryggi.
Í sveitarfélaginu eru ekki kosnir listar heldur eru allir íbúar í kjöri. Þeir geta síðan þurft að taka sæti í ráðum og nefndum. „Þetta er sameiginleg ábyrgð okkar allra og svona leggjum við til sveitarfélagsins. Þetta fær okkur til að skipta máli.
Hafandi unnið að lýðræðisuppbyggingu í Evrópu, þá get ég sagt að þetta er dýrmætt en hverfandi eiginlega alls staðar. Þetta er eitthvað sem fólk sér eftir og berst annað hvort við að stöðva hnignunina eða endurheimta.
Í stærri samfélögum hugsum við oftast hvað samfélagið geti gert fyrir mig en hér erum við í að halda samfélaginu uppi saman. Ef það þýðir að sitja í ráðum og nefndum, þá gerum við það. Það er ekki alltaf gaman en við lærum alltaf eitthvað.“
Urður sagði að sameiningar hefðu bæði reynst smærri sveitarfélögum vel og illa. Þröstur talaði um að í Skagafirði hefði fækkun orðið í sveitum en fjölgun á Sauðarkróki eftir að Sveitarfélagið Skagafjörður varð til. Minna hefði fækkað í Akrahreppi en öðrum sveitum en hann stóð sér. Urður sagði áskoranir geta verið í landfræðilega stórum og dreifðum sveitarfélögum. Hún spurði hvers vegna minni sveitarfélög mættu ekki halda sínu sjálfstæði meðan þau gætu sinnt þörfum íbúa og minnti á að skrifræði væri mannanna verk.
Íbúar mótmæla áformum ráðherra
Jóhann Frímann Þórhallsson, varaoddviti Fljótsdals, sagðist undrandi á að innviðaráðherra héldi því fram að gjá væri milli íbúa og sveitastjórna í minnstu sveitarfélögunum. Hann kvaðst einnig hissa á að haldið væri áfram með þvingunarhugmyndir þar sem þeim hefði verið harðlega hafnað síðast.
Sveitarstjórn boðaði til fundarins, augljóslega ekki til að afla hugmyndum ráðherra stuðnings. Hún virðist hafa til þess umboð íbúa en meira en helmingur kosningabærra íbúa Fljótsdals mætti í félagsheimilið Végarð. Í lok fundar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum ályktun þar sem valdi ráðherra til að sameina sveitarfélög með lögum er mótmælt.