Síldarvinnslan í 6. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki
Síldarvinnslan (SVN) er í sjötta sæti á árlegum lista Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki árins 2019. Listinn var birtur í morgun. Á honum eru fjögur önnur fyrirtæki á Austurlandi sem ná inn á listann yfir efstu 100 af stórum fyrirtækjum.Þau sem ná inn á topp 100 auk SVN eru Loðnuvinnslan sem er í 23. sæti. KFFB er í 31. sæti á listanum, Eskja í 39. sæti og Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. er í 92. sæti.
Í tilkynningu segir m.a. að þetta sé í ellefta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu en í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum.
„Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í tilkynningunni.
Flest fyrirtæki á listanum eru meðalstór eða 384 talsins, 237 eru stór fyrirtæki og 221 teljast lítil.
Í 11 ár hefur Creditinfo unnið að greiningu Framúrskarandi fyrirtækja og fylgst jafnframt með þróun á kynjahlutfalli forstjóra fyrirtækjanna, í stjórnum og framkvæmdastjórnum þeirra. Af 842 fyrirtækjum eru 13% forstjórar konur eða 109 talsins og 87% karlar eða 733 talsins.
Bætingin á kynjahlutfalli í stjórnum hefur verið mjög hægfara á þessum ellefu árum sem listinn hefur verið unninn en því miður er önnur staða varðandi kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Hlutfalll kvenna í framkvæmdastjórnum 2009 var 17,6% og í þetta sinn er það einungis 12,7%.
Mynd: SVN