Síldarvinnslan í 6. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki

Síldarvinnslan (SVN) er í sjötta sæti á árlegum lista Creditinfo um framúrskarandi fyrirtæki árins 2019. Listinn var birtur í morgun. Á honum eru fjögur önnur fyrirtæki á Austurlandi sem ná inn á listann yfir efstu 100 af stórum fyrirtækjum.


Þau sem ná inn á topp 100 auk SVN eru Loðnuvinnslan sem er í 23. sæti. KFFB er í 31. sæti á listanum, Eskja í 39. sæti og Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf. er í 92. sæti.

Í tilkynningu segir m.a. að þetta sé í ellefta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu en í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. 

„Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID. Sú staðreynd að fækkunin er hlutfallslega lítil er hins vegar gott merki um að íslenskt atvinnulíf stendur sterkum fótum, sem skiptir máli í því áfalli sem COVID-19 faraldurinn er fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir í tilkynningunni.

Flest fyrirtæki á listanum eru meðalstór eða 384 talsins, 237 eru stór fyrirtæki og 221 teljast lítil.

Í 11 ár hefur Creditinfo unnið að greiningu Framúrskarandi fyrirtækja og fylgst jafnframt með þróun á kynjahlutfalli forstjóra fyrirtækjanna, í stjórnum og framkvæmdastjórnum þeirra. Af 842 fyrirtækjum eru 13% forstjórar konur eða 109 talsins og 87% karlar eða 733 talsins. 

Bætingin á kynjahlutfalli í stjórnum hefur verið mjög hægfara á þessum ellefu árum sem listinn hefur verið unninn en því miður er önnur staða  varðandi kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum.  Hlutfalll kvenna í framkvæmdastjórnum 2009 var 17,6% og í þetta sinn er það einungis 12,7%.

Mynd: SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.