Skip to main content
Skip austfirsku björgunarsveitanna og flugvél Landhelgisgæslunnar við leitina í maí 2020. Mynd: GG

Sýknað af kröfu um bætur fyrir gáleysi er skipverji féll í sjóinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2025 14:56Uppfært 13. okt 2025 14:57

Útgerð og tryggingafélag skips hafa verið sýknuð af skaðabótakröfu foreldra skipverja, sem drukknaði þegar hann féll útbyrðis skömmu áður en skipið kom til hafnar á Vopnafirði í maí 2020. Foreldrarnir töldu útgerðina hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi við þjálfun skipverjans en dómstólar töldu það ósannað.

Foreldrar skipverjans fóru fram á 15 milljónir króna í skaðabætur á þeim forsendum að skipstjóri og útgerð skipsins hefðu sýnt af sér stórfellt gáleysi. Það byggði fyrst og fremst á því að skipverjinn hefði ekki farið á öryggisnámskeið áður en hann hóf störf um borð en líka á því að skipstjórinn hefði ekki gert manntal þegar komið var til hafnar á Vopnafirði.

Skipið, Erling KE, var í eigu Saltvers en leigt af Brimi frá 1. maí 2020 og fram á haust. Þann tíma stundaði það mest grálúðuveiðar við Norður- og Austurland, samkvæmt skráningum Fiskistofu. 

Skipið var leigt án áhafnar en hluti áhafnarinnar réði sig til Brims. Fleiri bættust við, meðal annars skipverjinn ungi. Vinur hans benti skipstjóranum á að hann kynni hafa áhuga á starfi. Hann kom til starfa 5. maí án þess að hafa reynslu af sjómennsku. Hann hafði verið tæpar tvær vikur á skipinu þegar slysið varð.

Fjörur gengnar við leitina. Mynd: GG



Undanþága frá öryggisþjálfun í 180 daga

Varðandi þjálfun mannsins sýknuðu dómarar bæði Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar útgerðina á þeim forsendum að undanþága er fyrir öryggisnámskeiði í 180 daga frá lögskráningu. Þá hafi kynningar um borð á öryggismálum og -búnaði um borð ekki verið svo ábótavant að það teljist hafa verið stórfellt gáleysi.

Skipstjóri og stýrimaður báru vitni um að skipverjinn hefði fengið öryggisfræðslu. Fyrir dómi var ekki hægt að leggja fram sönnunargögn í formi skips- eða þjálfunardagbóka. Í dómi héraðsdóms segir að það sé bagalegt að bækurnar séu ekki til. Þær eyðilögðust í eldi sem kom upp í skipinu þegar það var í Njarðvíkurhöfn um áramótin 2021/22. Sá eldur mun hafa kviknað út frá tæki í hleðslu. Skipið var afskráð eftir brunann.

Bækurnar eru meðal þeirra gagna sem lögmaður foreldranna reyndi að afla við málareksturinn. Hann bað meðal annars um verklagsreglur um borð, ráðningarsamning og fleira. Snemma árs svaraði tryggingafélagið því að „engin gögn væru hjá hvorugri útgerðinni.“ Hluti gagnanna var þó lagður fram samhliða greinargerð við málareksturinn.

Leitin á Vopnafirði var ítarleg. Mynd: GG



Ósannað að sneggri viðbrögð hefðu einhverju breytt

Talið er að skipverjinn hafi fallið útbyrðis klukkan 7:44 að morgni 18. maí 2020. Miðað við staðsetningargögn slokknaði þá skyndilega á síma hans. Skipið var þá statt aðeins 1,2 km fyrir utan höfnina á Vopnafirði. Skipið kom til hafnar og hóf löndun klukkan átta.

Skipverjinn lauk sinni vakt klukkan fjögur um nóttina. Hann átti því rétt á hvíld en til hans sást á afturþilfari um tíu mínútum áður en hann féll útbyrðis. Um klukkan 10:30 vaknaði káetufélagi hans og varð þess var að skipverjinn var hvergi sjáanlegur. 

Skipverjar sögðust fyrst hafa talið að hann hefði farið á pósthúsið þar sem hann hefði átt von á sendingu. Eins hafi ekki verið óþekkt að menn leigðu sér bíla og keyrðu til Reykjavíkur í vaktafríi. Upp úr hádegi tók áhöfnin að ókyrrast verulega og fór svo að skipstjóri tilkynnti lögreglu um hvarfið um klukkan 14. Þá hófst víðtæk leit um Vopnafjörð. 

Aðstandendur töldu skipstjórann hafa brugðist skyldum sínum með að fylgjast ekki betur með hverjir væru um borð við komuna í land og veitt því sérstaklega athygli að yngsta og óreyndasta skipverjann vantaði. Þeir vildu meina að fallið eitt hefði ekki valdið andlátinu heldur líka sein viðbrögð. Dómararnir töldu vinnubrögðin „ekki hafa verið óforsvaranleg“ þótt hafa hefði mátt samband við lögreglu upp úr hádegi þegar ljóst var að skipverjinn var ekki á Vopnafirði. Ekki var fallist á að skipstjóra bæri að fylgjast með öllum ferðum skipverja.

Heilt yfir telja dómstólarnir ekkert sannað að sneggri viðbrögð hefðu breytt neinu. Staðreyndin sé sú að ekkert liggi fyrir um orsök þess að skipverjinn féll í sjóinn. Engin vitni hafi verið af atvikinu né upptökur úr öryggismyndavélum. Sönnunarbyrðin um gáleysi hvíli á sækjendum og hún hafi ekki verið uppfyllt. Ekkert liggi fyrir um að þau atriði sem þeir hafi talið upp hafi nokkru skipt um það sem gerðist. Bótakröfunni var þar með hafnað. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms að öllu leyti.

Lík skipverjans fannst svo rekið á land í Vopnafirði tæpu ári eftir atvikið.

Mestur þungi í leitinni var daginn eftir atvikið. Mynd: GG